10. Canal Grande – Ca’ Foscari

Borgarrölt

Palazzo Grimani, Feneyjar

Palazzo Grimani

Palazzo Grimani

Aðeins ofar komum við að svartflekkóttri marmarahöll, Palazzo Grimani.

Dæmigerður endurreisnarstíll einkennir þessa höll, sem væri mjög fögur, ef framhliðin væri hreinsuð. Hún er afar formföst og nákvæm í hlutföllum með grískum súlum og rómverskum bogum, skörpum skilum milli hæða og miklu þakskeggi. Dyraumbúnaðurinn á jarðhæð, með stórum dyrum í miðju og minni dyrum til hliðar, er kenndur við Feneyjar.

Palazzo Barzizza

Á hinum bakkanum, vinstra megin við San Silvestro bátastöðina, er höll með útskoti á jarðhæð.

Palazzo Barzizza er býzönsk 13. aldar höll með upprunalegri framhlið.

Palazzo Corner-Spinelli

Við förum heldur lengra og komum að þekktri höll frá endurreisnartíma.

Palazzo Corner-Spinelli er ein af elztu endurreisnarhöllunum, reist 1490-1510 og varð fyrirmynd annarra slíkra halla. Hún er úr grófum steini með djúpum fúgum að neðanverðu, en að ofanverðu tiltölulega fínleg og skrautleg.

Ca’ Foscari

Við lýsum ekki frekar höllum á þessum kafla samgönguæðarinnar og nemum næst staðar á kröppu beygjunni á Canal Grande, þar sem háskólahallirnar þrjár blasa við augum.

Ca’ Foscari er hæsta höllin af þremur sambyggðum í sama síðgotneska stílnum, reist á 15. öld, með blúnduverki í kringum flókna oddbogaglugga, þar á meðal fjögurralaufa gluggum ofan við súlnahöfuð. Allar hallirnar hafa dæmigerðan skrautgluggahluta á miðri framhliðinni, sem einkennir síðgotneska stílinn í Feneyjum.

Þessar gotnesku hallir eru núna háskólinn í Feneyjum.

Næstu skref
Ca Foscari, Feneyjar

Ca’ Foscari