Veruleikinn er betri

Greinar

Lífseig er sú skoðun meðal manna, sem eiga að vita betur, að kenningar séu betri en raunveruleiki. Er þó markmið raunvísinda falið í að komast að raunveruleikanum. Kenningar gagnast við upphaf tilrauna til að komast að raunveruleika, en koma ekki í stað hans.

Ef við viljum komast að raun um, hversu góðar eru mismunandi aðferðir við skoðanakannanir, ber okkur fyrst og fremst að líta á reynsluna. Hún sýnir, að kenningar úr stærra og flóknara þjóðfélagi eins og Bandaríkjunum gilda ekki að fullu og óbreyttu hér á landi.

Hér dugir minna úrtak til að ná yfirsýn yfir helztu línur, af því að fjölbreytni skoðana er minni hér á landi. 600 manna úrtak er gott til að fá yfirsýn yfir helztu línur í stjórnmálum, en 1200 manna úrtak nægir ekki til að spá þingmannatölu í öllum kjördæmum landsins.

Hér á landi er síminn betra tæki til að ná til fólks en hann er í Bandaríkjunum, þar sem stéttaskipting er mun meiri en hér á landi og flutningar fólks meiri en hér. Þess vegna hefur síminn reynzt vel hér á landi, í samanburði við þjóðskrá, þegar úrtak er valið.

Þessari umræðu hefur nokkrum sinnum skotið upp hér á landi, einkum þegar til skjalanna koma nýir menn, sem ekki hafa fylgzt nógu vel með. Þeir einblína á kenningar upp úr bandarískum heimi, en átta sig síður á, að hér á landi er áratuga reynsla í skoðanakönnunum.

Einn slíkur birtist á þremur síðum Morgunblaðsins á sunnudaginn. Þar er enn einu sinni fullyrt, að 1200 manna úrtak sé hæfilegt og að þjóðskrárúrtak sé betra en símaúrtak. Ennfremur, að kannanir Félagsvísindastofnunar háskólans séu betri en kannanir annarra.

Áratuga reynsla er hér á landi fyrir allt öðru. George Gallup sagði eitt sinn, að bezti mælikvarðinn á nákvæmni í aðferðafræði sé fólginn í að bera niðurstöður könnunar, sem er nálægt kosningum, saman við kosningaúrslitin. Þetta er einfaldlega dómur reynslunnar.

Eftir þessari mæliaðferð eru kannanir Félagsvísindastofnunar ekki eins frambærilegar og kannanir annarra aðila. Eftir þessari mæliaðferð eru kannanir DV betri en annarra aðila, af því að þær hafa kosningar eftir kosningar sýnt minnst frávik frá kosningaúrslitum.

Nokkrir stjórnmálamenn, Morgunblaðið og aðstandendur Félagsvísindastofnunar hafa lengi haft áhuga á að komið yrði á skipulagi, sem felur í sér, að þær aðferðir, sem lakar hafa reynzt, fái löggildingu, en ekki hinar, sem betur hafa reynzt. Þessi skoðun er enn á ferð.

Ríkt er í mönnum að reyna að skipuleggja allt milli himins og jarðar. Of langt er gengið, þegar reynt er að koma á fót löggildingu ákveðinna vinnubragða í vísindum, sem hafa reynzt vel vestra, og banni við öðrum slíkum vinnubrögðum, sem hér hafa gefizt enn betur.

Sömu aðilar hafa yfirleitt einnig þá skoðun, að banna beri birtingu niðurstaðna í skoðanakönnun í dálítinn tíma fyrir kosningar, til dæmis í eina viku. Slíkt gæfi kosningastjórum flokkanna auðvitað betra tækifæri til að veifa útblásnum hugmyndum um fylgi sinna manna.

Rökrétt framhald af slíkri ritskoðun er, að bannaðar verði í fjölmiðlum ýmsar aðrar fréttir, sem hugsanlega gætu haft áhrif á skoðanir fólks og úrslit kosninga. Niðurstöður skoðanakannana eru eins og hverjar aðrar fréttir, sem geta hugsanlega haft áhrif á gang mála.

Sjónarmiðin, sem lýst var á þremur síðum Morgunblaðins, eru skref í átt til fortíðarmyrkurs, í dulargervi fræðimennsku, en fara á svig við íslenzkan veruleika.

Jónas Kristjánsson

DV