Menn og hagsmunir

Greinar

Stjórnmál snúast í stórum dráttum um þrennt, málefni, menn og hagsmuni. Síðasta atriðið, hagsmunirnir, skiptist svo aftur í stórum dráttum i þrennt, persónulega hagsmuni, flokkshagsmuni og hagsmuni aðila úti í bæ, aðallega fyrirtækja og samtaka af ýmsu tagi.

Málefni eru heldur léttvæg í baráttunni fyrir kosningarnar, sem verða eftir viku. Stærsti flokkurinn hefur uppgötvað, að hann nálgast guðsríki að stærð og þarf því margar vistarverur. Hann hefur því loðna stefnuskrá og minnist lítið á hana til að styggja engan.

Næststærsti flokkurinn beitir aðferðum Gorbatsjovs og segir kosningarnar vera þjóðaratkvæði um aðild að Evrópubandalaginu. Kjósendur eiga að telja sér trú um, að þessi flokkur sé líklegri en aðrir til að hafna aðild að Evrópubandalaginu, ef hún kemur síðar til álita.

Önnur málefni eru að mestu eins hjá flokkunum, ekki aðeins hjá þeim, sem munu koma mönnum á þing, heldur einnig hjá hinum, sem litla von hafa. Kvennalistinn er þó meira í mjúkum málum og í þvílíku afturhaldi í hörðum málum, að fé mun ekki aflast í mjúk mál.

Það eru menn, en ekki málefni, sem eru á oddi kosningabaráttunnar. Stærsti flokkurinn býður loksins upp á mann á móti manni næstststærsta flokksins. Kosningarnar snúast í raun um þessa tvo menn og hvor þeirra lendir í betri stjórnarmyndunarstöðu eftir kosningar.

Annað hvort myndar Steingrímur Hermannsson svipaða stjórn og nú, án þáttöku Sjálfstæðisflokksins, en með Kvennalista í stað Borgaraflokks, eða að Davíð Oddsson myndar stjórn með einum litlu flokkanna, líklega Alþýðuflokknum, sem er í þægilegri aðstöðu.

Erfitt er að hugsa sér, að rúm sé fyrir þessa menn báða í sömu ríkisstjórn, því að hvorugur þeirra getur haft hinn sem forsætisráðherra fyrir ofan sig. Er þess skemmzt að minnast, hversu friðlaus Steingrímur var með Þorstein sem forsætisráðherra fyrir þremur árum.

Þótt mennirnir séu hafðir á oddinum, leika hagsmunir þó undir niðri stærra hlutverk í kosningabaráttunni. Mikilvægastir eru þar persónulegir hagsmunir landsfeðranna og helztu hirðmanna þeirra í ráðuneytunum. Þeir þola ekki að missa beztu sætin við kjötkatlana.

Lífsstíll margra hangir á bláþræði í kosningunum. Hirðmennska gefur mun meiri tekjur en fengjust á vinnumarkaði, svo og aðstöðu til að hlutast til um hagi aðila úti í bæ. Peningar og völd eru nautnalyf, sem ráðherrar og hirðmenn eiga erfitt með að venja sig af.

Þetta veldur því, að þeir, sem ræða stjórnarmyndun eftir kosningar, hafa yfirþyrmandi hagsmuni af að komast að samkomulagi. Þess vegna munu þau málefni, sem voru léttvæg fyrir kosningar, verða einskis virði, þegar ráðherra- og hirðmannaefnin berjast um stólana.

Hagsmunir stjórnmálaflokka eru ekki eins áberandi, en skipta þó máli og eru vaxandi þáttur stjórnmálanna, ekki sízt eftir að ráðherrar Alþýðubandalagsins hafa kynnt nýjar leiðir fyrir stjórnmálaflokka til að komast yfir almannafé til útgáfu auglýsinga og bæklinga.

Ástandið er orðið svo spillt, að stjórnaraðilar ferðast milli kosningafunda með dýrum hætti á kostnað almennings, gefa út áróður sinn á kostnað almennings og halda pólitíska fundi á kostnað almennings, en stjórnarandstæðingar verða að borga allt sitt sjálfir.

Loks lifa fyrirtæki og atvinnugreinar á, að ekki sé raskað velferðarríki fyrirtækja, sem sýgur lífskjörin frá fólki. Um slíka hagsmuni snúast kosningarnar líka.

Jónas Kristjánsson

DV