17. Canal Grande – Santa Maria della Salute

Borgarrölt

Santa Maria della Salute

Santa Maria della Salute, Feneyjar 2

Santa Maria della Salute

Andspænis höllinni er ein af þekktustu kirkjum borgarinnar, Santa Maria della Salute.
Skrautleg hlaðstílsterta úr hvítum kalksteini, hönnuð af Longhena, reist 1631-1687. Hún stendur á bezta stað, við austurodda Dorsoduro hverfis, þar sem Canal Grande mætir Feneyjalóni, og blasir við úr öllum áttum. Hún er áttstrend og ofhlaðin skrauti, með sextán risavöxnum bókrollustoðum, sem þykjast styðja við stórt timburhvolf, er þarfnast slíks ekki.

Að innanverðu er kirkjan hófsamlegri. Hún hefur að geyma altaristöflu og loftmálverk eftir Tiziano og verk eftir fleiri kunna listamenn, svo sem Jacopo Tintoretto. Steinfellugólfið er óvenjulega fallegt, með ýmsum tilbrigðum í hringlaga mynztri.

Dogana di Mare

Fyrir utan kirkjuna, á eyraroddanum er gamla tollbúðin í Feneyjum, Dogana di Mare.

Glæsilegt útsýni er frá eyraroddanum til turns Markúsartorgs, hertogahallarinnar, breiðbakkans Riva degli Schiavoni og eyjanna San Giorgio Maggiore og Giudecca. Núverandi tollbúð er frá síðari hluta 17. aldar. Á hornturni hennar bera tveir bronzrisar gullna kúlu, þar sem gæfugyðjan stendur á einum fæti og snýst eins og vindhani.

Hér er Canal Grande á enda og við tekur sjálft Feneyjalónið víðáttumikið. Lokið er yfirgripsmikilli ferð okkar um Canal Grande. Við tökum bátinn yfir til Markúsartorgs, þar sem við hefjum gönguferð um San Marco hverfið.

Næstu skref