Bush ber ábyrgðina

Greinar

Erfitt verður fyrir Evrópubandalagið að dæma Saddam Hussein Íraksforseta fyrir stríðsglæpi, nema honum fylgi annar valdamaður, sem hefur stutt hann dyggilega að undanförnu og studdi hann dyggilega fram á síðasta dag fyrir stríð. Það er George Bush Bandaríkjaforseti.

Þegar Íraksher var í rauninni búinn að gefast upp og var innilokaður á flótta í herkví bandamanna, töldu brezkir og franskir herstjórar, að sleppa ætti hermönnum Saddams án vopna úr herkvínni. Þeir tóku því af þeim vopnin, um leið og þeir hleyptu þeim í gegn.

Herstjórar Bandaríkjamanna voru hins vegar látnir sleppa þeim með öllum hergögnum úr kvínni. Nú er áætlað, að þannig hafi Schwarzkopf verið látinn hleypa í gegn 700 skriðdrekum, 1.400 brynvögnum og 340 fallbyssum. Þetta er nú uppistaða í sláturtækjum Saddams.

Það var ákvörðun beint að ofan að vernda kjarnann í hernaðarmætti hins sigraða. Bush tók þessa óskynsamlegu ákvörðun til að bæta stöðu súnníta og Ba’ath- flokksins, sem eru fulltrúar miðsóknarafls gegn miðflóttafli Kúrda í norðri og sjíta í suðri.

Bush og ráðgjafar hans skilja illa þjóðernisstrauma. Þeir þágu ráð konungsættarinnar í Saúdí-Arabíu og annarra furstaætta á Arabíuskaga, sem vildu ekki, að völd Kúrda, sjíta og lýðræðissinna ykjust í Írak, heldur vildu bara hallarbyltingu innan yfirstéttarinnar.

Þegar Íraksher gekk miður að fást við Kúrda og sjíta, tók Bush aðra örlagaríka ákvörðun, sem sneri stríðsgæfunni og breytti henni í sláturtíð. Bandaríkjaforseti ákvað að veita herþyrlum Saddams undanþágu frá fyrra banni við hernaði úr lofti gegn uppreisnarmönnum.

Þannig leiddi Bush hörmungar yfir Kúrda og sjíta. Hann tefldi valdaskák, sem stefndi að framhaldi á stjórn súnníta og Ba’ath-ista, með eða án Saddams Hussein. Hann hleypti fyrst hergögnum þeirra úr herkvínni og leyfði þeim síðan að beita þyrlum á uppreisnarmenn.

Fyrir og eftir stríð hefur stjórn Bush Bandaríkjaforseta neitað fulltrúum landflótta lýðræðissinna frá Írak um áheyrn. Hann vill ekki, að þeir trufli valdaskákina. Í þessu fylgir hann ráðum arabískra konunga og emría, sem vilja framhald miðaldastjórnarfars á svæðinu.

Bush lét nýlega reka embættismann, sem hafði skýrt bandarískri þingnefnd frá því, hvernig stjórn hans hafði sífellt neitað að hlusta á mótbárur og aðvarnir rétt fyrir stríð og hlaðið í þess stað vopnum og fjármagni á fulltrúa hins ríkjandi ástands, það er Saddam Hussein.

Vafalaust hefur komið Bush og utanríkisráðuneyti hans á óvart, hvað skjólstæðingurinn var harðskeyttur og her hans öflugur, þegar vopnunum var beint gegn eigin fólki. Í þokubotnum Washingtonbogar hafa menn reiknað með, að valdataflið yrði ekki svona blóðugt.

Mistök í valdatafli breyta ekki því, að Bandaríkjaforseti og utanríkisráðuneyti hans bera ábyrgð á blóðbaðinu í Írak. Blóð Kúrda og sjíta er á höndum Bush, hvort sem Evrópubandalgið setur upp stríðsglæparéttarhöld gegn skjólstæðingi hans einum sér eða ekki.

Menn fá ekki syndaflausn með að fleygja matarpökkum eins og poppkorni á gönguleiðir flóttamanna. Menn ná ekki heldur þeim árangri í valdatafli, sem stefnt var að með því að hleypa hergögnun Saddams úr herkvínni og skilja herþyrlur hans undan flugbanni.

Vanmat Bush á lýðræði, rangt mat hans á eftirstríðsstöðunni og tvenn örlagarík mistök í herfræðum hafa breytt Bush sigurvegara í Bush stríðsglæpamann.

Jónas Kristjánsson

DV