Ruðum kastað í pakkið

Greinar

Bifreiðaskoðun Íslands er nánast fullkomið dæmi um orð og borð íslenzkra stjórnmála. Menn kvarta um okur hennar og heimta afslátt, svo að þeytt er í þá ruðum af nægtaborði þessarar einokunarstofnunar, sem sameinar allt hið versta úr ríkis- og einkarekstri.

Samkvæmt rökum formanns Neytendasamtakanna má ráða, að vandamálið felist í, að Bifreiðaskoðunin græði peninga. Ef það er vandamálið, er einfaldast fyrir stofnunina að færa sig yfir í rekstrarvenjur ríkisfyrirtækja og gera reksturinn óhagkvæmari og arðminni.

Bifreiðaskoðun Íslands getur ráðið fleiri silkihúfur og möppudýr til að snúast í kringum sig. Hún getur brennt peningum eins og hvert annað ríkisfyrirtæki. Ef hún gerði það, mundi formaður Neytendasamtakanna ekki geta sótt neinar ruður í hennar garð.

Vandamál Bifreiðaskoðunarinnar er ekki fólgið í, að hún græði peninga. Vandamálið felst í sjálfri tilvist stofnunarinnar, sem er alger tímaskekkja í nútímaþjóðfélagi. Tilvistin hlýtur að leiða til vandræða, annaðhvort í okri eða sukki. Okrið er illskárri kosturinn.

Bifreiðaskoðun Íslands er rekin sem einkafyrirtæki, hlutafélag, er metur sjálft fjárþörf sína, en hefur um leið algera og ríkisverndaða einokun á sínum markaði. Bifreiðaeigendur geta ekki snúið sér neitt annað til að fá aðalskoðun á bílum og verða að greiða skráð gjöld.

Ef stofnunin væri rekin eins og hvert annað ríkisfyrirtæki, hefði hún sama aðhald og önnur slík fyrirtæki; fjármálaráðuneytið bannaði því mannaráðningar og hlutaðist til um kjör starfsmanna, skæri niður fjárhagsáætlanir og neitaði því um leyfi til framkvæmda.

Bifreiðaskoðun Íslands hefur hvorki aðhaldið, sem venjulegar ríkisstofnanir hafa að ofan, né aðhaldið, sem einkafyrirtæki í samkeppni hafa frá ytri markaðslögmálum. Þannig sameinar hún verstu eiginleika þessara tveggja rekstrarforma í eitt fáránlegt fyrirbæri.

Auðvitað felst lausnin í að leggja niður þessa einokunarstofnun og flytja skoðunina til bílaverkstæða landsins, sem eru hluti af markaðskerfinu. Samhliða þeim þarf að vera til fámenn eftirlitsstofnun ríkisins, sem fylgist með, að bílaverkstæði vandi sig við skoðun.

Núverandi iðnaðarráðherra var dómsmálaráðherra á sínum tíma og kom þá á fót þessari sérkennilegu stofnun. Alþingi samþykkti, að henni yrði komið á fót. Þá vakti athygli, að þingmenn Sjálfstæðisflokksins ímynduðu sér, að þeir væru að einkavæða ríkisgeirann!

Meðvitundarleysi þingmanna á sínum tíma minnir mjög á nærsýni Neytendasamtakanna. Þingmenn gerðu sér enga grein fyrir eðli stofnunarinnar, sem þeir voru að samþykkja, og formaður Neytendasamtakanna gerir sér ekki heldur neina grein fyrir því.

Hér í blaðinu var á sínum tíma varað við stofnun Bifreiðaskoðunarinnar. Síðan hefur nokkrum sinnum verið hér í blaðinu bent á, að ferill stofnunarinnar væri eins og vænta mátti. Svipuð gagnrýni hefur víðar komið í ljós. Samt fást menn ekki til að skilja vandann.

Menn væla um okur stofnunar, sem þeir áttu að koma í veg fyrir, að yrði stofnuð. Menn væla líka um of háa vexti, þótt þeir hafi stutt ríkissukkið, sem leiddi til hækkunar vaxta. Að því leyti minnir neytendaformaðurinn á formann bandalags opinberra starfsmanna.

Niðurstaðan er sú, að kerfið bítur á jaxlinn, kastar ruðum í pakkið og einsetur sér að framleiða fegurri reikninga á næsta ári. Meinsemdin verður bara verri.

Jónas Kristjánsson

DV