Hornrétt á framhlið hallarinnar er vesturvirki kirkjunnar San Zanipolo.
Önnur af tveimur helztu gotnesku kirkjunum í Feneyjum, rúmlega 100 metra löng og háreist eftir því, með einföldum og voldugum vesturstafni, reist síðast á 13. öld og fyrst á 14. öld sem klausturkirkja Dóminíkusa. Sjálfur dyraumbúnaður kirkjunnar er yngri, frá upphafi endurreisnartímans.
Fullu nafni heitir hún Santi Giovanni e Paolo, en jafnan stytt í munni Feneyinga. Kirkjan hýsir fræg listaverk, einkum eftir Pietro Lombardo, Giovanni Bellini og Paolo Veronese.
Innst við kór er gengið til vinstri inn í Capella del Rosario. Þar eru mörg málverk eftir Paolo Veronese, þar á meðal Tilbeiðsla fjárhirðanna, á norðurveggnum andspænis inngangi. Við fjöllum nánar um Veronese í annarri gönguferð, þegar við heimsækjum listasafnið Accademia.