Efnahagssvæði er torsótt

Greinar

Utanríkisráðherrar ríkja Evrópubandalagsins reyndust ófáanlegir til að falla frá kröfu um veiðiheimildir í lögsögu Íslands, þegar þeir hittust í Bruxelles á mánudag til að undirbúa annan fund hinn sama dag með utanríkisráðherrum ríkja Fríverzlunarsamtakanna.

Sumir þessara utanríkisráðherra höfðu áður haft góð orð um það, hver í sínu lagi, að sjónarmið Íslendinga um engar veiðiheimildir í efnahagslögsögunni væru skiljanleg og sanngjörn í sérstöðu Íslands. Góð orð þeirra reyndust lítils virði, þegar á hólminn kom.

Í ljós kom, að ekki eru allir viðhlæjendur vinir, ekki frekar í fjölþjóðamálum en í öðrum stjórnmálum. Það er ótryggt að telja sig eiga fasteign í brosi, svo sem DV hefur áður bent á, þegar Evrópubandalagið hefur verið til umræðu. Já í gær getur þýtt nei á morgun.

Evrópska efnahagssvæðið strandar þó ekki á þessu máli einu. Hér í blaðinu hefur verið bent á, að meðal ráðamanna Evrópubandalagsins sé ekki áhugi á slíku svæði. Þeir telja, að það muni tefja tilraunir þeirra til að steypa Evrópubandalaginu í samstæðrari heild.

Ráðamenn Evrópubandalagsins telja sig verða að gera sér upp áhuga á evrópsku efnahagssvæði. Slíkar viðræður hafa einnig þann kost í augum þeirra, að þær tefja fyrir, að þeir þurfi að taka efnislega afstöðu til áhuga ríkja Austur-Evrópu á aðild að bandalaginu.

Ráðamenn Evrópubandalagsins telja sig eiga allra kosta völ, því að þeir þurfi hvorki á ríkjum Fríverzlunarsamtakanna né Austur-Evrópu að halda. Þessir aðilar þurfi hins vegar á Evrópubandalaginu að halda, svo sem sjáist af áhuga margra ríkja á beinni aðild að því.

Við höfum lélega samningsaðstöðu, af því að Evrópuviðskipti okkar eru tæplega mælanleg í samanburði við önnur Evrópuviðskipti. Ráðamönnum bandalagsins er sama, hvort við lifum áfram í velsæld fríverzlunar eða föllum niður í fátækt einangrunar og ytri tollmúra.

Við þetta bætist, að ýmsir ráðamenn Evrópubandalagsins telja heppilegt að kúga veiðiheimildir út úr Íslendingum, öðrum til viðvörunar og eftirbreytni. Þeir vilja, að umheimurinn, þar með Japan og Bandaríkin, skjálfi fyrir hinu volduga tollmúrabandalagi.

Ekki kemur til greina, að við veitum veiðiheimildir. Þess vegna er skynsamlegt að búa sig undir þann möguleika, að við verðum ekki aðilar að evrópsku efnahagssvæði, ef það verður að veruleika, og enn síður aðilar að sjálfu Evrópubandalaginu, þótt aðrir hlaupi inn.

Við getum reynt að benda Evrópubandalaginu á, að áhugavert sé að ræða við okkur um sölu á raforku um streng til Evrópu. Þetta er nýtt atriði, sem lítið hefur verið talað um, en má flagga meira í náinni framtíð. Það mundi gefa okkur meiri tekjur en ný álver.Við ættum líka að sætta okkur við tilhugsunina um tollfrjálsan innflutning á erlendri búvöru á móti tollfrjálsum fiskútflutningi. Við mundum spara milljarða á hverju ári með því að setja sauðfjár- og kúabændur á eftirlaun og hætta landeyðingu á afréttum landsins.

Meðan við erum að tregðast við að sætta okkur við þessa tilhugsun, er gæfulegast að einblína ekki á aðild að efnahagssvæðum eða efnahagsbandalögum, heldur reyna að verja fríverzlunarsamninga, sem til eru, svo sem viðskiptasamninginn við Evrópubandalagið.

Okkur henta hvorki efnahagssvæði né afmörkuð og tollmúruð efnahagsbandalög, heldur gagnkvæm og víðtæk fríverzlun til allra átta, yfir öll höf.

Jónas Kristjánsson

DV