“Afspyrnuerfitt” siðferði

Greinar

Samkvæmt ummælum nýskipaðs fjármálaráðherra er íslenzkt þjóðfélag mun flóknara en hið bandaríska. Að minsta kosti segist hann telja “afspyrnuerfitt” að setja hér hliðstæðar reglur um varnir gegn ráðherraspillingu og settar hafa verið í Bandaríkjunum.

Vestanhafs er gerður greinarmunur á kostnaði, er ráðherrar valda sem ráðherrar fyrir hönd ríkisins; sem flokksbroddar fyrir hönd flokks síns; og sem einstaklingar. Reikningur fyrir tvö síðartöldu atriðin er sendur viðkomandi aðilum, flokki og einstaklingi.

Þegar bandarískur ráðherra fer á pólitískan fund og notar samgöngutæki ríkisins við það tækifæri, er reikningur sendur viðkomandi stjórnmálaflokki. Þegar bandarískur ráðherra býður skólabræðrum sínum í hanastél, er ætlazt til, að hann borgi sjálfur.

Raunar talar Friðrik Sófusson ekki í alvöru, er hann segir “afspyrnuerfitt” að gera það hér á landi, sem þykir sjálfsagt í Bandaríkjunum, sem eru þúsund sinnum fjölmennari. Hann hefði getað reynt að finna skárri afsökun fyrir íslenzkri spillingu, en nennti því ekki.

Fjármálaráðherra hefur svo litlar áhyggjur af þessu máli, að honum finnst ekki taka því að finna frambærilega útúrsnúninga. Þess vegna slær hann bara fram þverstæðu raunveruleikans. Það er um leið stuðningsyfirlýsing hans við pólitíska spillingu á Íslandi.

Þegar fjármálaráðherra var áður ráðherra, mælti hann hin fleygu orð: “Ef ráðherra getur ekki boðið nokkrum bekkjarbræðrum sínum í glas, þá er ekki mikið eftir.” Hann var að afsaka misnotkun sína á peningum skattborgaranna til persónulegra þarfa.

Ekkert er það, sem bannar ráðherrum að bjóða bekkjarbræðrum, vinum eða ættingjum í glas. Hann tekur bara upp veskið og borgar, alveg eins og allir aðrir gera, sem bjóða bekkjarbræðrum, vinum eða ættingjum í glas. Hvorugt málið varðar ríkið að neinu leyti.

Spilling ráðherrans felst í, að hann sér engan mælanlegan mun á sínum persónulega fjárhag og fjárhag ríkisins. Þetta er svipuð spilling og er í garði margra íslenzkra stjórnmálamanna, þótt enginn hafi varið hana á jafn barnslegan hátt og núverandi fjármálaráðherra.

Hversu flókið, sem ráðherrann segir þetta vera, er þó ljóst, að einfaldara er hér en í Bandaríkjunum að greina sundur; hvenær ráðherra býður skólabræðrum, vinum og ættingjum; hvenær hann býður flokksbræðrum; og hvenær hann fer með risnu fyrir ríkishönd.

Þrátt fyrir orð ráðherra, er ljóst, að tiltölulega auðvelt er hér á landi að gera greinarmun á ferðum ráðherra fyrir hönd ríkisins; fyrir hönd flokks hans; og loks í hans eigin þágu. Núverandi fjármálaráðherra kærir sig bara ekki um slíka afskiptasemi.

Af fyrri og síðari ummælum núverandi fjármálaráðherra er ljóst, að hann mun ekki beita sér fyrir breytingum á reglum, sem fráfarandi forsætisráðherra játaði, að væru “ferðahvetjandi” og felast í, að hreinar tekjur ráðherra aukast í hlutfalli við aukin ferðalög þeirra.

Áhugaleysi ráðherrans á breytingum stafar meðal annars af, að hann hefur eins og sumir aðrir ráðherrar tekið eftir, að bekkjarbræðurnir hneykslast ekki, heldur slefa af hrifingu yfir að fá að njóta mola af gnægtaborði spillingarinnar, þegar þeim er boðið í drykk.

Áhugaleysið endurspeglar skilning á, að upp til hópa eru Íslendingar á þriðja heims stigi og hafa þann einan áhuga á spillingu að komast til þáttöku í henni sjálfir.

Jónas Kristjánsson

DV