Moka þarf ofan í skurði

Greinar

Skurðgröftur mýra felur í sér verstu náttúruspjöll, sem hinn hefðbundni landbúnaður hefur valdið hér á landi, næst á eftir ofbeit og uppblæstri. Þessi skurðgröftur er víða langt umfram það, sem nýtt er til ræktunar og virðist raunar sums staðar vera alveg tilgangslaus.

Stórvirkum skurðgröfum hefur verið beitt á landið og það rist djúpum rákum þvert í gegnum landslagið. Þessi mannvirki, sem rista heilar hlíðar, sjást víða úr mikilli fjarlægð og fela í sér mikla sjónmengun, til viðbótar við eyðingu hins fjölbreytta lífríkis mýranna.

Þessi spjöll eru orðin að mjög svo sýnilegu einkennistákni íslenzks landbúnaðar, hrikalegur minnisvarði um landbúnaðarstefnu, sem rekin hefur verið áratugum saman, án nokkurs minnsta tillits til stöðugrar gagnrýni, sem þessi miður þjóðholla iðja hefur sætt.

Skurðgröftur mýra hefur verið rekinn sem atvinnubótavinna á kostnað skattgreiðenda, ýmist í hamslausri bjartsýni á útþenslumöguleika í framleiðslu óþarfra afurða eða beinlínis í kaldrifjaðri misnotkun á sjálfvirku peningaflæði, nema hvort tveggja sé í senn.

Þegar rituð verður harmsaga hins hefðbundna landbúnaðar á síðari hluta aldarinnar, er brýnt að rekja, hverjir bera ábyrgð á þessum áberandi mistökum, sem eyða lífríki, spilla útsýni og koma engum að gagni. Það verður stór þáttur í ljótri ábyrgðarsögu landbúnaðar.

Hver á svo að borga, þegar þjóðin kemst að raun um, að hún verður að láta moka aftur ofan í þessi ljótu sár og reyna að ganga svo frá málum, að mýrarnar geti lifnað við að nýju? Ekki munu landbúnaðarráðherrar og strjálbýlisþingmenn bjóðast til að taka upp veskin.

Þótt erfitt verði að draga einstaklinga til fjárhagslegrar ábyrgðar fyrir að hafa á þennan og annan hátt sóað umtalsverðum hluta af aflafé þjóðarinnar í gagnslaust og skaðlegt daður við hefðbundinn landbúnað, situr eftir hin blýþunga siðferðilega ábyrgð landbúnaðarsinna.

Svo gegndarlaust hefur landeyðingarstefna hins hefðbundna landbúnaðar verið rekin, að þjóðargjöfin mikla frá 1974 var beinlínis notuð til að hleypa fleira fé á fjall. Við stöndum nú andspænis þeirri staðreynd, að búið er að éta alla þjóðargjöfina og raunar meira til.

Enn þann dag í dag nemur árleg landeyðing umfram landgræðslu 1000 hekturum á hverju ári. Á móti 2000 hekturum, sem vinnast, tapast annars staðar 3000 hektarar. Samt er enn þann dag í dag rekin rammasta beitilandsstefna undir yfirskini landgræðslu og landverndar.

Ill meðferð hins hefðbundna landbúnaðar á landinu, bæði ofbeit heiða og eyðing mýra, er ljós öllu umhverfisáhugafólki, sem hingað til lands kemur og lítur í kringum sig. Skammt er í, að alþjóðarómur stimpli Íslendinga sem mesta umhverfishneyksli vestrænna ríkja.

Á sama tíma lætur formaður þess stjórnmálaflokks, sem harðast hefur gengið fram í að kalla á peninga skattgreiðenda til að auka og margfalda þessa mengun, sig dreyma um að selja ímynd Íslands sem vistfræðilegrar paradísar norður í höfum. Svo ruglað getur rím orðið.

Á undan ímynd kemur innihald. Fyrsta skref okkar í átt til drauma fyrrnefnds flokksformanns ætti að felast í að stöðva misnotkun okkar á landinu. Við þurfum að stöðva taprekstur á gróðurbúskap og fara að byggja upp höfuðstólinn, sem okkur hefur verið trúað fyrir.

Í stað þess að fórna 20 milljörðum árlega í landeyðingu landbúnaðar ættum við í alvöru að fara að verja fé til að alfriða afrétti og moka ofan í skurðina.

Jónas Kristjánsson

DV