Sigurhátíð hinna sigruðu

Greinar

Hina raunverulegu sigurvegara Persaflóastríðsins vantar á undarlegar sigurhátíðir, er haldnar hafa verið víðs vegar um Bandaríkin að undanförnu. Það eru forsetinn í Írak og emírinn í Kúvæt, sem eru sigurvegarar stríðs, þar sem Bush Bandaríkjaforseti er hinn sigraði.

Emírinn í Kúvæt og ættmenn hans eru farnir að feta sig áfram til svartra miðalda í ríki, sem Bush Bandaríkjaforseti afhenti þeim á silfurfati. Það hófst við stríðslok með dauðasveitum og er nú komið út í skríparéttarhöld og dauðadóma, sem felldir eru á færibandi.

Stuðningur Vesturlanda við Kúvæt og Saúdi-Arabíu gegn yfirgangi Íraksforseta hefur ekki leitt til, að afturhaldsstjórnir þessara ríkja hafi stigið skref í átt til mann- og lýðréttinda. Þvert á móti hefur sigur emíra og kónga verið notaður til að magna miðaldir í þessum ríkjum.

Bandaríkjamenn eru búnir að gleyma orðbragði, er Bush Bandaríkjaforseti notaði með réttu um Saddam Hussein Íraksforseta, sem Bush sagðist mundu hrekja frá völdum. Það tókst Bush ekki. Enginn endir er enn fyrirsjáanlegur á ógnarstjórn Husseins í Írak.

Forseti Íraks gat meira að segja notað Persaflóastríðið til að festa sig og ætt sína í sessi. Hann hefur getað ofsótt sjíta og Kúrda harkalegar en áður. Nú er svo komið, að Kúrdar lifa mest á litlu verndarsvæði, sem er ekki nema brot af hinum hefðbundnu löndum þeirra.

Ósigur Bush Bandaríkjaforseta og Bandaríkjanna í Persaflóastríðinu fólst fyrst og fremst í, að dauðasveitum Íraksforseta var hleypt í gegn með alvæpni, þegar þær voru búnar að gefast upp. Ef þær hefðu verið teknar til fanga, væri Saddam Hussein núna búinn að vera.

Vesturlönd studdu Bush og Bandaríkin í stríði þeirra við Persaflóa, af því að menn vonuðu, að það leiddi til aukins lýðræðis á þessu svæði, sem stjórnað var af óargadýrum og miðaldaemírum. Niðurstaðan er sú, að lýðræði er fjarlægara Persaflóa en fyrir stríð.

Bush sveik Vesturlönd með stuðningi sínum við miðaldagengið í kónga- og emíraríkjum Persaflóa og við óargadýrin í Ba’ath-flokknum í Írak. Ef hann er eins konar sigurvegari í Persaflóastríðinu er það sem svikari við vestrænan málstað lýðræðis og mannréttinda.

Sérkennilegast í máli þessu er, að Bandaríkjamenn skuli ekki hafa áttað sig á, að stríðinu var klúðrað fyrir þeim. Þeir hafa að undanförnu dansað um af fögnuði á sigurhátíðum út af niðurstöðu, sem var ekki sigur, heldur ósigur fyrir Bandaríkin og pólitíska forustu þeirra.

Bush Bandaríkjaforseti hefur eytt möguleikum á, að slík fjölþjóðastríð verði háð af hálfu Vesturlanda í náinni framtíð. Vesturlandabúar munu framvegis ekki treysta Bandaríkjunum fyrir fé og herliði til að taka þátt í klúðri á borð við niðurstöðu Persaflóastríðsins.

Að baki harmleiksins liggur annars vegar vaxandi einangrun Bandaríkjamanna í þjóðarsjálfmiðjun. Þeir fylgjast ekki með því, sem gerist í öðrum löndum og setja sig ekki inn í tungumál, þjóðernishyggju og hugarfar fólks á svæðum, sem þeir eru að skipta sér af.

Hins vegar liggur að baki vaxandi gjá milli þeirra, sem gabba, og hinna, sem eru gabbaðir. Tækni ímyndafræðinga fer sívaxandi. Geta almennings til að sjá gegnum tækni ímyndafræðinga fer síminnkandi. Þess vegna ímynda Bandaríkjamenn sér, að þeir hafi sigrað.

Af þessum ástæðum er ástæða til að sakna þess, að Saddam Hussein og al Sabah emír voru ekki á heiðurspalli við nöturlegar sigurhátíðir Bandaríkjamanna.

Jónas Kristjánsson

DV