Sant’Aponàl
Við förum af torginu um suðausturhorn þess tæplega 300 metra leið um Calle della Madonetta, Campiello Meloni og Calle Mezzo að torginu framan við Aponàl-kirkjuna.
Ekki lengur notuð sem kirkja, en þekkt fyrir gotneskar lágmyndir á stafninum.
Riva del Vin
Við förum til suðurs með stafni kirkjunnar og áfram eftir Calle dei Luganegher inn á Campo San Silvestro, þar sem við beygjum til vinstri inn í Rio terrà San Silvestro, sem sveigir til hægri út að Canal Grande, þar sem bakkinn heitir Riva del Vin. Alls er þetta tæpra 300 metra leið.
Við göngum bakkann í átt til Rialto-brúar.
Þetta er eini breiði bakkinn við Canal Grande, þar sem ferðamenn geta spókað sig og setið við sleitur á gangstéttar-veitingahúsi og fylgst með ferðum fólks um Rialto-brú og báta um Canal Grande. Maturinn á þessum veitingahúsum er ekki merkilegur, en ekki heldur tiltakanlega dýr.
Nafn bakkans stafar af því, að fyrr á öldum var víni skipað hér á land.
Við bakkann eru hótelin Marconi og Sturion. Í hliðargötu er veitingahúsið Alla Madonna.
Næstu skref