Góður Evrópubyr

Greinar

Viðræðurnar um evrópskt efnahagssvæði hafa lagzt í farveg, sem er fremur hagstæður Íslendingum. Á undanhaldi er krafa Evrópubandalagsins um veiðiheimildir við Ísland á móti tollfrelsi fyrir íslenzkar sjávarafurðir. Nú er talað um “gagnkvæmar” veiðiheildir í smáum stíl.

Norskt tilboð braut ísinn í viðræðunum í Luxemborg. Það fól í sér, að Normenn tækju að sér, frekar en Íslendingar, að mæta að nokkru leyti kröfum Spánverja um að fá auknar veiðiheimildir norður í höfum. Þetta tilboð bjargaði viðræðum vikunnar í Luxemborg.

Norðmenn gerðu okkur mikinn greiða með þessu tilboði. Á bak við það felst skilningur þeirra á, að sjávarútvegur gegnir ekki sama þjóðhagslega hlutverki í olíu- og iðnaðarríki á borð við Noreg og hann gerir í tiltölulega einhæfu sjávarútvegsríki á borð við Ísland.

Í framhaldi af þessu fleyttu samningamenn Íslands hugmynd um, að Spáverjar fái á Íslandsmiðum kvóta, sem samsvarar 2.600 tonnum af þorski, gegn því að Íslendingar fái jafngildan kvóta hjá löndum Evrópubandalagsins. Með þetta tilboð skildu menn sáttir að kalla.

Evrópubandalagið hefur ekki fallizt á þetta, en andinn í viðræðunum er orðinn allt annar. Hafa verður þó í huga, að það voru stjórnmálamenn, sem gáfu tóninn í Luxemborg, og þeir hafa jafnan reynzt Íslendingum eftirlátari en embættismenn bandalagsins í Bruxelles.

Búast má við, að embættismenn bandalagsins reyni nú enn að framleiða vandamál í hinum tæknilegu viðræðum um frágang málsins, sem fyrirhugaðar eru í Salzburg í næstu viku. Málið er því engan veginn komið í höfn. Það hefur hins vegar nokkuð góðan byr að sinni.

Hér eftir sem hingað til verður okkur til styrktar í viðræðum af þessu tagi, að krafa Evrópubandalagsins um veiðiheimildir fyrir tollívilnanir var í eðli sínu órökrétt. Hún getur hæglega leitt til krafna á borð við, að Íslendingar fái aðgang að appelsínulundum í Valensíu!

Eins og oft og lengi hefur verið bent á í leiðurum DV er orðið “gagnkvæmni” lykill að árangri í viðræðum við Evrópubandalagið. Gegn tollaívilninum komi tollaívilnanir og gegn veiðiheimildum komi veiðiheimildir eða aðrar jafngildar heimildir á svipuðu sviði.

“Gagnkvæmar” veiðiheimildir eru þar að auki gagnlegt orðalag um nánast ekki neitt, því að Evrópubandalagið getur ekki boðið neinar marktækar veiðiheimildir í hinum ofveiddu fiskistofnum sínum á móti jafngildum veiðiheimildum í efnahagslögsögu Íslendinga.

Í Salzburg mun embættismönnum Evrópubandalagsins reynast erfitt að setja fótinn fyrir langþráð efnahagssvæði í Evrópu með því að hanga í órökréttum kröfum, sem stjórnmálamennirnir hafa gefið á bátinn. Þess vegna er ástæða til hóflegrar bjartsýni á framhaldið.

Ef allt gengur að óskum, munu embættismenn málsaðila árita niðurstöðu 28. júlí í Helsinki. Síðan munu ráðherrar undirrita í haust endanlegan samning, sem fer fyrir Alþingi til endanlegrar staðfestingar. Búast má við, að innanlands verði sæmilegur friður um málið.

Ef hins vegar dæmið gengur ekki upp með þeim hætti, sem hér hefur verið lýst, fer allt í bál og brand. Íslendingar munu ekki fallast á kröfurnar um einhliða veiðiheimildir í lögsögu Íslands og munu heldur standa fyrir utan efnahagssvæðið en láta slíkt yfir sig ganga.

Á þessu stigi er ekki sérstök ástæða til slíkrar svartsýni. Málið hefur að vísu ekki verið leyst, en það hefur runnið í farveg, sem virðist stefna að farsælum endi.

Jónas Kristjánsson

DV