Þráður leysir málin tvenn

Greinar

Við höfum lent í vandræðum með tvo mikilvæga samninga við útlendinga, annars vegar um evrópskt efnahagssvæði og hins vegar um nýtt álver á Íslandi. Hvorugt málið er endanlega úr sögunni, en saman kalla þau á endurmat okkar á stöðu samningaskákanna.

Annars vegar sjáum við fram á, að Evrópubandalagið er ófært um að gera gagnkvæma samninga á jafnréttisgrundvelli. Það getur bara gleypt umhverfi sitt, ekki samið við það. Í bandalaginu ráða ferðinni þrengstu sérhagsmunir í líkingu við íslenzkan landbúnað.

Hins vegar sjáum við fram á, að erlend álfélög eru ófær um að greiða meira fyrir orku á Íslandi en sem svarar fjármagnskostnaði okkar af að taka lán vegna virkjana. Varla má heita, að peningar fáist upp í orkuverið við Blöndu, þótt það eigi að þjóna nýju álveri.

Álmálið er í þeirri vonlausu og fáránlegu stöðu, að áratugum saman er ekki fyrirsjáanlegur neinn arður af orkusölu til Keilisness, aðeins endurgreiðsla á fjármagnskostnaði. Samt er verið að tala um að fórna ódýrustu virkjanakostum okkar í þágu álversins.

Að selja orku til Keilisness á fjármagnskostnaðarverði er álíka heimskulegt og að veita togurum frá ríkjum Evrópubandalagsins aðgang að fiskimiðum okkar. Viðskipti af slíku tagi eru verri en engin viðskipti, því að okkur ber skylda til að ná gróða af auðlindum okkar.

Ríkisstjórnin mun væntanlega haga sér rétt í málum evrópska efnahagssvæðisins. Haldið verður áfram að reyna samninga í haust, en ekki í neinni örvæntingu. Við munum ekki bjóða frekari eftirgjafir. Við munum jafnframt sætta okkur við, að samningar náist ekki.

Við Evrópubandalagið höfum við gert nothæfan viðskiptasamning, sem við höldum áfram að nota, þótt við gerumst ekki aðilar að evrópsku efnahagssvæði og látum ekki hvarfla að okkur að gerast aðilar að sjálfu Evrópubandalaginu, þótt nágrannaþjóðirnar geri það.

Við getum svo í vaxandi mæli farið að sveifla nýrri gulrót fyrir framan viðsemjendur okkar í Evrópubandalaginu, hvort sem er í marghliða eða tvíhliða viðræðum um aukið viðskiptafrelsi sjávarafurða. Við getum boðizt til að selja þeim orku um streng yfir Íslandshaf.

Auknar kröfur um mengunarvarnir og um aðgerðir gegn eyðingu ózonlags, svo og almennt gegn gróðurhúsaáhrifum, eru farnar að valda auknum erfiðleikum við notkun á kolaorku og kjarnorku. Kaup á vatnsorku verður í auknum mæli talinn fýsilegur kostur.

Okkar samningsaðstaða gagnvart Evrópubandalaginu og öðrum viðskiptavinum byggist á, að við höfum á boðstólum fisk og orku. Hvort tveggja ætlum við að eiga sjálf hér eftir sem hingað til, en selja öðrum það, sem hægt er nota hverju sinni af þessum auðlindum.

Í staðinn viljum við annars vegar fá fríverzlun með afurðir okkar og hins vegar markaðsverð fyrir þær, hvort sem þær eru fiskur eða orka. Þetta er afar einföld og hógvær samningakrafa. Og við getum vel tekið lífinu með ró, unz Evrópubandalagið áttar sig.

Til þess að skákin teflist svona, megum við ekki fórna taflstöðu okkar í orkumálum á altari þráhyggju um að semja verði við Atlantsál um smánarverð fyrir ódýrustu vatnsorku landsins. Við þurfum að eiga þessa orku aflögu til að veifa framan í Evrópubandalagið.

Sérfræðingar eru ört að komast á þá skoðun, að sala á orku um þráð til meginlandanna sé að verða einn álitlegasti kostur okkar á lifibrauði í framtíðinni.

Jónas Kristjánsson

DV