Ófarir í eltingaleik

Greinar

Eltingaleikurinn við austurríska steinhöggvara gæti verið uppistaða í nýrri grínmynd um löggulíf. Knúnir af daglegum fréttum um framgang Mörtls og félaga fara eftirlitsmenn af ýmsu tagi á vettvang og ná engum árangri, því að Mörtl gefur þeim jafnan langt nef.

Þegar beðið er um að fá að skoða farteskið, er því hafnað. Þegar krafizt er, að Mörtl mæti á ákveðnum stað, mætir hann ekki. Þegar settur er á hann yfirfrakki, fer hann án hans. Þegar steinhöggvarar eru stöðvaðir í tolli, senda þeir sýnishorn sín í pósti.

Sumir þættir eftirlitsvaldsins standa meira að segja með steinhöggvurum, enda eru þeir hér á vegum Bifreiðastöðvar Íslands, sem ber á þeim alla ábyrgð. Í sérstakri undanþágunefnd veitti Birgir Þorgilsson ferðamálastjóri Mörtl leyfi til að halda áfram iðju sinni!

Þetta er dæmigert þriðja heims vandamál, sem felst í, að útlendingar umgangast okkur eins og apa og komast upp með það. Þýzk ferðaskrifstofa var formlega vöruð við að senda hingað stjórnlausan ferðahóp, en tók ekkert mark á því, af því að hún taldi sig mundu sleppa.

Þessi hópur slapp tiltölulega ódýrt frá vandanum. Hið sama er að segja um hina frægu útlendinga, sem fóru á fjallatrukk inn á Kjalveg áður en hann var opnaður og voru sóttir þangað í þyrlu. Þeir greiddu 2000 króna sekt og hafa sagt þá gamansögu víða um heim.

Sumir Íslendingar skilja ekki, af hverju er verið að amast við þessu fólki. Öldum saman hefur ekkert verið sagt, þótt heimamenn og gestir taki sjaldgæfa steina og steingervinga, brjóti dropasteina, geri þarfir sínar í bergvatnsár og stundi berserksakstur um víðan völl.

Vandamálið felst í, að nú gengur þetta ekki lengur. Ísland er illu heilli orðið ferðamannaland, þar sem fjöldi manna hefur hagsmuni og lifibrauð af ferðafólki. Álag á viðkvæmum hálendisstöðum er orðið óhóflegt. Reglur og eftirlit miðast ekki við þetta mikla og nýja álag.

Raunasögur þessa sumars gefa Alþingi og ríkisstjórn rækilegt tilefni til að nota næsta vetur til að gefa út ný lög og reglugerðir um ýmis atriði, sem varða umgengni við Ísland. Það er verðugt verkefni fyrir dugmikinn umhverfisráðherra að taka forustu í því máli.

Um töku steina og steingervinga, svo og plantna, sem margar hverjar eru sjaldséðar, þurfa að gilda nákvæmar reglur eins og þegar gilda um töku fugla og eggja. Við brotum á slíku, svo og við brotum á reglum um aðra umgengni, þarf að setja hörð viðurlög.

Við þurfum að breyta þeirri þriðja heims ímynd, að hér búi þjóð, sem láti vandalisma yfir sig ganga, og koma okkur upp þeirri ímynd, að vandalar komist ekki upp með moðreyk hér á landi. Við megum ekki láta innlenda hagsmunaaðila spilla þessari breytingu.

Umfram allt þurfum við sem þjóð að átta okkur á, að þetta er alvörumál, en ekki meinsemi. Við megum ekki láta þætti þessa máls vera í höndum manna, sem ekki skilja það og geta ekki hreyft sig fyrir silkihönskum sínum og þriðja heims undirgefni við útlendinga.

Það er ekki eingöngu vegna útlendinga, að við þurfum að setja strangar umgengnisreglur og fylgja þeim eftir í alvöru. Við þurfum líka að mannast sjálfir. Hin gamla, kærulausa umgengni fyrri fámennis- og einangrunartíma gengur ekki á fjölmennis- og ferðatíma nútímans.

Við skulum láta ófarirnar í hinum skondna eltingaleik við Mörtl verða kornið sem fyllir mælinn, svo að við séum á næsta sumri búin að ná tökum á verkefninu.

Jónas Kristjánsson

DV