Stjórnlyndisflokkurinn

Greinar

Frjálshyggja á erfitt uppdráttar hér á landi, þrátt fyrir mikla umræðu. Helzt er það í Alþýðuflokknum, sem hún á hljómgrunn, svo sem fram kemur í afstöðu ráðherra flokksins til sölu veiðileyfa í sjávarútvegi og aukinnar þátttöku lyfjanotenda í kostnaði við lyf.

Nokkrir hagfræðingar, sem hafa verið á leið frá Alþýðubandalaginu yfir í Alþýðuflokkinn, hafa sett fram hugmynd um 500 daga átak til að koma upp markaðsbúskap í atvinnulífinu. Það er athyglisvert, að slíkar hugmyndir koma ekki frá Sjálfstæðisflokknum.

Í þeim flokki, sem hefðbundið er að telja lengst til hægri í stjórnmálunum, á frjálshyggja sér fáa formælendur. Helzt eru það fræðimenn, tengdir flokknum, sem hafa sett fram hugmyndir um markaðsbúskap í tengslum við tillögur um sölu veiðileyfa í sjávarútvegi.

Broslegt er, að svokallaður Eimreiðarhópur, sem setti frjálshyggju fram á kerfisbundinn hátt fyrir tveimur áratugum, hefur nú tvístrast á leið til “stjórnlyndis”, svo notað sé orðfæri frjálshyggjumanna. Sumir Eimreiðarmanna eru orðnir kerfiskarlar stjórnlyndis.

Örlög þessara manna hafa meðal annars falizt í að verða fyrirgreiðsluþingmenn landbúnaðarkjördæma eða forstjórar einokunarstofnana í útflutningsgreinum. Sannast þar, að langar setur við kjötkatla þjóðfélagsins draga úr lyst manna á breytingum á þjóðfélaginu.

Sjálfstæðisflokkurinn sem heild er miklu fremur stjórnlyndisflokkur en frjálshyggjuflokkur. Sterkari rótin að meiði hans er gamli Íhaldsflokkurinn, þar sem kerfiskarlar voru fjölmennir. Samfara stjórnlyndi ríkir í flokknum sterk þrá til hins mikla leiðtoga.

Flokksbundnum sjálfstæðismönnum líður vel á landsfundum, þar sem er mikil eining og mikið klapp undir fánaborgum og lúðraþyt. “Flokkur allra stétta” er í eðli sínu korpórasjónsflokkur á borð við hinn mjög svo stjórnlynda fasistaflokk Mussolinis á Ítalíu.

Ef skyggnzt er í þingflokk sjálfstæðismanna, má sjá, að öllum þorra hans eru markaðslögmál lokuð bók. Þetta eru kjördæmapotarar, sem vilja nefndir á ráð ofan og eru sælastir, ef þeir fá sæti í þessum stofnunum. Þeir styðja yfirleitt einokun gegn samkeppni.

Ef litið er framhjá orðaflaumi í stefnuskrám, má sjá, að í reynd styður Sjálfstæðisflokkurinn eflingu ríkisvaldsins til styrktar atvinnurekendum, sem eiga í erfiðleikum, af því að þeir hafa orðið undir í hægfara þróun sögunnar. Þetta er svonefndur pilsfaldakapítalismi.

Þar að auki er Sjálfstæðisflokkurinn mjög hallur undir hin stóru fyrirtæki, sem hafa aflað sér hálfgerðrar einokunar á starfsvettvangi sínum. Hann er flokkur Eimskipafélagsins, Flugleiða, olíufélaganna og tryggingafélaganna, svo að þekkt dæmi séu rakin.

Sjálfstæðisflokkurinn er yfirleitt andvígur röskun í þjóðfélaginu. Hann styður einokun, sem fyrirtæki og stofnanir hafa smám saman aflað sér. Hann styður úreltan atvinnurekstur, af því að hann er hefðbundinn. Hann er yfirleitt andvígur tillögum frjálshyggjunnar.

Það er í anda Sjálfstæðisflokksins, að menn séu góðir hver við annan, hjálpi bágstöddum fyrirtækjum, veiti fyrirgreiðslur í atvinnulífinu, starfi saman stétt með stétt, ruggi ekki bátnum með nýjum hugmyndum og líti upp til hins mikla leiðtoga, ef hann finnst.

Í ríkisstjórninni koma því frjálshyggjuhugmyndir einkum frá Alþýðuflokknum. Það eru ráðherrar Sjálfstæðisflokksins, sem reyna að bregða fæti fyrir þær.

Jónas Kristjánsson

DV