Hallarbylting

Greinar

Í Sovétríkjunum gátu þrír menn komið saman og sett forseta ríkisins frá völdum með því að lýsa hann óhæfan til starfa vegna veikinda, og það án þess að þremenningarnir hefðu neitt stjórnskipulegt hlutverk til slíkra ákvarðana. Þetta er dæmigerð hallarbylting.

Sviptingar af slíku tagi gerast aðeins í þeim ríkjum þriðja heimsins, sem standa á mestum brauðfótum. Sovétríkin eru einmitt eitt slíkt þriðja heims ríki. Enda er auðvelt að skipta um forseta, þegar þeir sækja ekki vald sitt til neinnar þjóðar, heldur til klíkunnar.

Ef þremenningunum tekst að framkvæma hallarbyltingu með svona einföldum hætti, er ljóst, að í rauninni stóð ekki neitt vald á bak við Gorbatsjov sem forseta. Hann naut engrar virðingar heima fyrir, en var sífellt að leita að einhverri miðjuleið, sem ekki var til.

Þjóðir Sovétríkjanna rísa ekki upp til stuðnings við hinn brottrekna forseta, af því að þeim er hjartanlega sama um hann. Þær styðja að vísu enn síður þremenningana, en þeir njóta meiri stuðnings af því tagi, sem hentar í þriðja heiminum, hjá her og ríkislögreglu.

Gorbatsjov var fyrst og fremst línudansari, sem reyndi að tefla saman framfarasinnum og harðlínumönnum á þann hátt, að miðjumaðurinn Gorbatsjov væri alltaf á toppnum. Klapplið hans var þó ekki heima fyrir, heldur á Vesturlöndum, einkum í Bandaríkjunum.

Ráðamenn og fjölmiðlar í Bandaríkjunum vilja gjarna túlka umheiminn út frá bandarískum reynsluheimi. Þar vestra er mikið látið með persónur manna og einkum þó forseta. Gorbatsjov féll að þessum reynsluheimi eins og hann kæmi tilbúinn úr pakka frá auglýsingastofu.

Það stríðir gegn heilbrigðri skynsemi að setja traust sitt á einn mann. Það er hrein firra að gera slíkt, þegar þessi eini maður er forsvarsmaður ríkis, sem hvorki fer eftir hefðum og reglum lýðræðisríkja, né hefur siðferðilega og efnahagslega burði og festu á við Vesturlönd.

Margoft hefur verið reynt að benda klappliði Vesturlanda á, að Gorbatsjov væri forgengileg vara. Miðjan, sem hann þættist vera fulltrúi fyrir, væri ekki til. Baráttan stæði í raunveruleikanum milli lýðræðissinna og gömlu harðlínumannanna, sem nú hafa styrkt völd sín.

Einkum er áberandi, að efnahagsstefna Gorbatsjovs hefur hvorki verið fugl né fiskur. Hún var að því leyti lakari en gamla harðlínustefnan, að hún tætti miðstýringu efnahagskerfisins í sundur, en mannaði sig ekki í að gefa markaðsöflunum færi á að hlaupa í skarðið.

Lengi notuðu harðlínumenn Gorbatsjov til að sýna umheiminum mannlega ásýnd eða ímynd Sovétríkjanna. Hann var meðal annars notaður til að beina athygli og stuðningi Vesturlanda frá raunverulegum lýðræðis- og markaðssinnum í Sovétríkjunum.

Nú telja harðlínumennirnir að baki þremenninganna, að þessi ímynd hafi runnið sitt skeið, sennilega af því að Gorbatsjov hafi misst tökin í samkeppni við valdamiðstöðvar lýðræðissinna í einstökum ríkjum Sovétríkjanna. Nú telja þeir, að spyrna verði við fótum.

Þessi breyting er að sumu leyti góð. Hún skvettir köldu vatni framan í dáleidda Vesturlandabúa, sem mynduðu klapplið Gorbatsjovs. Hún setur andstæður Sovétríkjanna fram í skýrara og raunsærra ljós. Hún hreinsar þokuna í kringum ímynd og persónu forsetans.

Nú sjáum við hina raunverulegu ráðamenn Sovétríkjanna, arftaka Bresnjevs, og gerum okkur ekki eins miklar grillur um, hvar á vegi Sovétríkin eru stödd.

Jónas Kristjánsson

DV