2. ganga:
Kongens Nytorv
Enn hefjum við göngu á Kóngsins Nýjatorgi, við enda Striksins og byrjum eins og áður á því að ganga yfir Litlu Kóngsinsgötu, en förum svo yfir torgið að Konunglega leikhúsinu. Handan þess er Tordenskjoldsgade með listamannakránni Brönnum. Síðan tekur við Konunglega akademían í Charlottenborg og þá erum við komin að Nýhöfn (Nyhavn).
Framundan, vinstra megin Breiðgötu (Bredgade), er Thottshöll. Á hinu horninu við Breiðgötu er kyndugt hús, “Kanneworffske Hus“. Í framhaldi af því sjáum við svo húsaröð Nýhafnar, sem við skulum virða fyrir okkur, áður en við förum yfir götuna fyrir botni hafnarinnar. Við skulum líka horfa til baka yfir torgið og taka eftir, hvernig hótelið Angleterre ber í hvítum glæsibrag af öðrum höllum torgsins.
Milli Kanneworffske Hus og oddmjóa hússins göngum við inn Store Strandgade, þar sem veitingahúsið væna, Els, er strax á vinstri hönd, á nr. 3. Við göngum þá götu áfram og síðan til baka til hægri eftir Lille Strandgade út að Nýhöfn. Í þessum götum er margt gamalla húsa frá síðari hluta átjándu aldar. Við tökum sérstaklega eftir nr. 3 og 18 við Stóru og nr. 14 og 6 við Litlu Strandgötu.