Inn og út um glugga

Greinar

Á yfirborðinu virðist svo sem lýðræði sé á sigurgöngu í heiminum um þessar mundir. Það hefur náð öruggri fótfestu í Austur-Evrópu og hefur síðustu vikur verið að skáka alræðisöflum út af borðinu í Sovétríkjunum og þeim þjóðríkjum, sem munu leysa þau af hólmi.

Hrun alræðis í Sovétríkjunum flýtir um leið fyrir endalokum margra harðstjóra í þriðja heiminum, sem hafa hangið í völdum á þeirri einföldu aðferð að etja saman heimsveldunum tveimur. Vestrið er farið að gera lýðræðiskröfur til viðskiptaríkja sinna í suðri.

Þegar er komið í ljós í Austur-Evrópu, að þar mun lýðræði eiga sér öflugan málsvara á næstu árum. Þar þykir fólki svo vænt um nýfengið lýðræði, að það gerir sér grein fyrir, hve mikilvægt er að vernda það og magna. Það er meðvitað um, hvað felst í lýðræði.

Búast má við, að þungamiðja lýðræðisástar færist frá vestrinu yfir til austurs, því að ýmis bilunareinkenni eru farin að sjást í vestri. Meðan lýðræðið hefur stokkið inn um austurglugga hins evrópsk-ameríska samfélags, er það að læðast út um vesturglugga þess.

Bilunareinkennin eru skýrust í Bandaríkjunum, sumpart vegna þess að þar er einna lengst, samfelld reynsla af lýðræði. Augljóst dæmi um þetta er hin litla þátttaka í kosningum, um eða innan við 40%. Hér á landi erum við gæfusamari með upp undir 90% þátttöku.

Kosningabarátta í Bandaríkjunum er að mestu leyti orðin barátta um peninga frá velgerðarfólki og -fyrirtækjum. Hún er um leið orðin að sjónvarpsstríði milli auglýsinga og einnar málsgreinar yfirlýsinga frambjóðenda. Ímyndafræði hefur leyst hugmyndafræði af hólmi.

Úrkynjun lýðræðis í Bandaríkjunum hefur skýrast komið fram í vali á lélegum og sumpart afspyrnu lélegum forsetum. Að minnsta kosti allar götur frá og með Kennedy hafa forsetar þar í landi fremur verið ímyndir en innihald; verið framleiðsluvara ímyndafræðinga.

Bilið breikkar stöðugt milli þeirra, sem gabba, og hinna, sem gabbaðir eru. Tækni markaðsfræðinga og ímyndafræðinga eykst sífellt, en geta fólks til að vara sig á vörum þeirra og vörumerkjum eykst engan veginn að sama skapi. Fólk verður þrælar vörumerkja og klisja.

Fólk kaupir ekki gæði, heldur vörumerki, í gallabuxum. Fólk velur ekki gæði í stjórnmálamanni, heldur ímyndir og klisjur. Fólk lætur í auknum mæli teymast af þeim, sem ráðnir eru til að draga það á asnaeyrum. Það lifir sátt í vellystingum praktuglega.

Um leið hefur stéttaskipting farið vaxandi. Fjölmennur minnihluti býr við vonlausar aðstæður í eiturlyfja- og glæpahverfum, meðan hinir sælu girða sig betur af í sérstökum hverfum. Hinir ríku kæra sig kollótta um hina aumu. Græðgi vex og almannasamúð minnkar.

Á sama tíma og fyrsti heimurinn eða vestrið er að fara sigurför um annan heiminn eða austrið og er farinn að róta til í þriðja heiminum eða suðrinu, er þriðji heimurinn eða suðrið að ná öflugri fótfestu í stórborgum Bandaríkjanna. Og þar lætur fólk sér fátt um finnast.

Við sjáum anga af sömu vandræðum hér á landi. Fólk hleypur í vaxandi mæli á eftir ímyndunum, klisjum og vörumerkjum. Bilið milli tekjuhárra og tekjulágra fer vaxandi. Græðgi er að öðlast aukna þjóðfélagslega viðurkenningu og ofbeldi fer vaxandi á almannafæri.

Ríkjandi skipan er ekki endanleg eða varanleg á sjálfvirkan hátt. Ef svo fer sem horfir, verður austrið þungamiðja lýðræðis, sem byrjað er að grotna í vestri.

Jónas Kristjánsson

DV