Smámennatímar

Greinar

Ekkert ríki eða ríkjabandalag er nú á tímum fært um þá yfirsýn, sem þarf til að geta gefið öðrum, svo að það sjálft megi verða ríkt. Þetta gátu Bandaríkin á tíma Marshall-aðstoðarinnar eftir síðari heimsstyrjöldina, en þetta getur Evrópubandalagið ekki í hringiðu nútímans.

Aðstæður í heiminum eru svipaðar og þær voru fyrir hálfum fimmta áratug. Austur-Evrópa er skyndilega orðin að mestu leyti frjáls og getur nýtt sér aðstoð. Hið sama má segja um ýmis svæði þriðja heimsins, þar sem menn eru að hverfa frá fyrri miðstýringarstefnu.

Fyrir tæpri hálfri öld voru við völd í Bandaríkjunum menn á borð við utanríkisráðherrana George Marshall og Dean Acheson, sem sáu, að framtíðarhagsmunir Bandaríkjanna voru háðir því, að ríkið gæfi Vestur- Evrópu fé og aðra hjálp í formi Marshall-aðstoðar.

Gjafmildi Bandaríkjanna eftir heimsstyrjöldina stuðlaði að evrópsku efnahagsundri og lyfti um leið velmegun í Bandaríkjunum. Þaðan komu tækniþekkingin og viðskiptatengslin, sem urðu enn verðmætari söluvara, þegar Evrópumenn urðu nógu ríkir til að kaupa hana.

Nú eru slík stórmenni hvergi sjáanleg í valdastólum Bandaríkjanna, heldur smámenni ein, sem eru meira eða minna framleidd á auglýsingastofum, enda höfum við nú fengið í röð þá Ronald Reagan og George Bush. Enn síður er stórmenni að finna í Evrópubandalaginu.

Eitt smámennið er Mitterrand Frakklandsforseti, sem hefur um þessar mundir forustu um að koma í veg fyrir, að Austur-Evrópa geti nýtt sér nýfengið frelsi með því að selja Vestur-Evrópu ódýra búvöru. Stefna Mitter-rands er hin sama og mandarína Evrópubandalagsins.

Ódýr búvara er um þessar mundir hið eina, sem Austur-Evrópa getur selt til að afla sér gjaldeyris til uppbyggingar. Iðnaður Austur-Evrópu er að mestu handónýtur af langvinnum ríkisrekstri. En Austur- Evrópa fær ekki að afla sér nauðsynlegs gjaldeyris.

Ef Mitterrand og mandarínar Evrópubandalagsins hefðu yfirsýn yfir hagsmuni Vestur-Evrópu, mundu þeir sjá, að innflutningur ódýrrar búvöru frá Austur- Evrópu mundi bæta lífskjör í Vestur-Evrópu og gera álfunni kleift að græða á viðskiptum við Austur-Evrópu.

Í stað þess gera mandarínar og þrýstihópar með sér samsæri um að vernda vesturevrópskan landbúnað gegn kraftaverki, sem mundi jafnast á við Marshall- aðstoð, ef það næði fram að ganga. Þeir eru jafn lítilla sæva og íslenzkir stjórnmála- og embættismenn.

Á meðan þröngir sérhagsmunir í Frakklandi ráða ferð Evrópubandalagsins í ofbeldi þess gagnvart hinum nýfrjálsu ríkjum Austur-Evrópu eru aðrir enn þrengri sérhagsmunir í Írlandi að stjórna ofbeldi bandalagsins gegn fiskveiðiríkjum í norðri, þar á meðal Íslandi.

Á þriðja staðnum eru þröngir sérhagsmunir í Evrópubandalaginu að koma í veg fyrir, að utanríkisviðskipti veraldar verði gerð frjálslegri með nýju samkomulagi í GATT-fríverzlunarsamtökunum. Alls staðar í senn er bandalagið að bregða fæti fyrir framtíðina.

Ef ráðamenn Evrópubandalagsins og nokkrir helztu valdamenn Vestur-Evrópu hefðu yfirsýn á borð við Marshall og Acheson, mundu þeir sjá, að hagsmunir aðildarríkja bandalagsins byggjast ekki á að nauðga umhverfi sínu, heldur á því að styrkja það til dáða.

Við lifum á tímum smámenna, sem ekki geta gripið tækifæri aukins lýðræðis í austri og suðri. Íslendingar munu eins og aðrir líða fyrir þessa skammsýni.

Jónas Kristjánsson

DV