Við lítum inn í bakgarð hússins nr. 44, þar sem áður voru búðir stórskotaliðsins, sem gerðar hafa verið að íbúðum. Síðan höldum við áfram Strandgötu að síkinu, þar sem við snúum til hægri.
Ef við héldum hins vegar beint áfram Strandgade, mundum við koma á nr. 93 að sendiráði Íslands og hinu heimsfræga veitingahúsi Noma.
En við beygðum til hægri. Hér komum við í hinn amsturdammska hluta Kaupmannahafnar, hannaðan 1618 af hollenzkum arkitektum, sem hinn títtnefndi byggingastjóri og konungur, Kristján IV, kallaði til.
Þegar við komum að horni Overgaden Neden Vandet, fáum við fyrirtaks útsýni eftir Kristjánshafnarsíki (Christianshavn Kanal), þar sem nýmálaðir bátar hvíla við bakka og gömul hús og vöruskemmur kúra við götur. Við tökum eftir gálgum og blökkum efst á mjóum stöfnum húsanna.
Við snúum til vinstri yfir næstu brú, inn í Sankt Annægade, þar sem við virðum fyrir okkur hinn einstæða vindingsturn Frelsarakirkjunnar (Vor Frelsers Kirke). Honum var bætt 1747-52 við hlaðstílskirkjuna, sem er frá 1682. Spíran er 87 metra há, næsthæst í bænum á eftir ráðhústurninum. Við getum klifrað upp turninn að innanverðu og spíruna að utanverðu.