Kóngsins Nýjatorg
Við stöndum á mótum Striks og Kóngsins Nýjatorgs í sporum ótaldra þúsunda Íslendinga, sem hafa búið í Kaupmannahöfn um langan eða skamman tíma, allt frá því er Arnaldur Íslendingur var á ofanverðri tólftu öld í föruneyti Absalons biskups, stofnanda borgarinnar við sundið.
Við munum nokkurn veginn fylgja sömu leið og við lýstum í fyrstu gönguferðinni um gamla bæinn. Í þetta sinn erum við eingöngu á höttunum eftir slóðum Íslendinga, bæði gömlum og nýjum. Af nógu er að taka, því að Kaupmannahöfn var eftir Þingvöll og fyrir Reykjavík hin raunverulega höfuðborg Íslands í fimm aldir.
Hér verður aðeins stiklað á stóru. Þeim, sem vilja fá meira að vita, er bent á skemmtilega og fróðlega bók Björns Th. Björnssonar listfræðings: “Á Íslendingaslóðum í Kaupmannahöfn”, sem kom út hjá Máli og menningu árið 1961 og var enn fáanleg fyrir stuttu.
Okkur á vinstri hönd er hótelið Angleterre, þar sem Halldór Laxness hefur stundum gert garðinn frægan og þar sem Vigdís Finnbogadóttir hélt 1000 manna veizluna. Þar sat líka löngum um miðja síðustu öld hinn skapstóri sérvitringur “Repp”, mesti Danahatari Íslandssögunnar.
Repp hét raunar Þorleifur Guðmundsson og var úr Hreppunum. Hann var skarpur og verðlaunaður námsmaður, en missti af meistaratign, þegar hann missti stjórn á skapi sínu í ræðustól. Hann samdi ensk-danska orðabók og enskar þýðingar, var í góðum efnum og bjó hér handan við hornið, í Austurgötu, á dýrasta stað borgarinnar. Hann var vinur Jóns Sigurðssonar, tók mikinn þátt í stjórnmálafundum og gaf út hvert blaðið á fætur öðru, Dagen, Krigen og Tiden, mestmegnis með hóli um sig sjálfan.
Hér í nágrenninu eru fleiri og eldri spor Laxness. Handan torgsins er Stóra Kóngsinsgata, þar sem hann bjó hjá Scheuermann á nr. 96 fyrstu mánuði sína í hinum stóru útlöndum og vakti að eigin sögn nokkra undrun fyrir matvendni.
Gothersgade liggur hér frá torginu í öndverða átt við Nýhöfn. Þar á nr. 15 var til skamms tíma og er kannski enn næturklúbburinn Bonaparte, þar sem Þorsteinn Viggóson veitingamaður hélt úti höfðinglegri stammbúlu fyrir íslenzka nátthrafna.
Handan torgsins, til hægri séð frá Angleterre, sjáum við tvær hallir. Fyrst er þar Charlottenborg, þar sem Konunglega listaakademían hefur lengi verið til húsa. Þar hafa margir íslenzkir listamenn og arkitektar komið við sögu, allar götur síðan séra Sæmundur Hólm var þar við nám 1776.
Hér lærðu Ásgrímur Pálsson, Einar Jónsson, Jóhannes Kjarval, Muggur, Sigurður málari, Sigurjón Ólafsson, Svavar Guðnason og margir fleiri. Hér drukku til skamms tíma flestir íslenzkir listamenn af brunnum evrópskrar menningar. Charlottenborg er meginþáttur í lista- og húsasögu Íslands.
Þar til hægri er Konunglega leikhúsið, þar sem Anna Borg lék og þar sem stundum eru sett á svið leikrit Jóhanns Sigurjónssonar og Guðmundar Kamban. Íslenzku tengslin eru þó öllu meiri við óperuna í sama húsi, því að hér sungu Einar Kristjánsson, Friðbjörn Björnsson, Magnús Jónsson og Stefán Íslandi.