Útrás um Sjálandsbyggðir
Við erum nú orðin svo kunnug Kaupmannahöfn, að við höfum dag aflögu fyrir danska sveitasælu. Við fáum okkur bíl á leigu til að skoða á Norður-Sjálandi hið dæmigerða danska landslag, kastala, söfn og dómkirkju. Við getum auðvitað farið í hópferðir til þessara staða, en frjálslegra er að fara með eigin tímaskyni á eigin spýtur.
Ef við ætlum að skoða allt, sem hér er lýst, á einum degi, verðum við að láta hendur standa framúr ermum. Leiðin er 175 kílómetrar og tekur tæpar fjórar klukkustundir í akstur. Vegna takmarkaðs opnunartíma merkisstaða verða þá ekki nema fimm stundir aflögu til skoðunar.
Þá er um að velja að sleppa einhverju og skoða annað lauslega, sem við höfum á minnstan áhuga, eða taka tvo daga í ferðina. Þá gistum við annaðhvort á Hotel Marienlyst á Nordre Strandvej 2, Helsingjaeyri, eða á Hotel Store Kro á Slotsgade 6, Fredensborg.
Við leggjum af stað 9 að morgni, finnum Østerbrogade og ökum hana til norðurs. Nafn hennar breytist fljótlega í Strandvejen, enda fylgjum við ströndinni úr borginni. Þetta er engin hraðbraut, heldur mjór vegur, sem bugðast um sjávarpláss, sumarhús og sveitasetur. Í góðu veðri sjáum við til Hveðnar (Ven) og Svíþjóðar.
Louisiana
Með rólegum akstri komum við til þorpsins Humlebæk um 10, þegar Louisiana-safnið er opnað. Þetta er gamalt sveitasetur í stórum og glæsilegum garði nyrzt í þorpinu, heilt völundarhús nútímalistar, bæði úti og inni, í gamla húsinu og í nýjum sölum. Þetta er eitt frjálslegasta safn, sem um getur, umvafið fersku sjávarlofti. Þegar við heimsóttum það síðast, var þar mjög stór sýning á verkum Picasso.