Þeir lugu sig inn á þjóðina

Greinar

Ef ríkisstjórn svokallaðrar einkavæðingar yrði við völd í 46 ár, yrði að þeim tíma liðnum ekkert eftir á Íslandi nema opinberi geirinn. Er þá gert ráð fyrir, að hlutur ríkissjóðs belgist út á hverju ári í stíl við það, sem hann á að gera samkvæmt nýju fjárlagafrumvarpi.

Þetta frumvarp er skýrt dæmi um, að stjórnmálaflokkarnir og stjórnmálamennirnir eru nokkurn veginn alveg eins, þótt þeir séu alltaf að auglýsa, að þeir séu öðruvísi en hinir. Allir stækka þeir hlut ríkisins af þjóðarkökunni í heild og styðja þannig miðstýringarstefnu.

Ríkisstjórnin hefur ekki treyst sér til að mæta fjárlagahallanum með niðurskurði útgjaldaáætlana, þegar á heildina er litið. Hún framleiðir í þess stað þjónustugjöld, sem hún segir, að séu ekki skattar, en fela í sér sömu aukningu á tekjum ríkisins og skattar hefðu gert.

Orðaleikir fjármálaráðherra fá ekki dulið, að hann er að auka hlutdeild ríkisins á kostnað annarra þátta þjóðarbúsins, svo sem atvinnulífs og heimila. Hann er að auka hlutdeild ríkisins í kökunni úr tæpum 29% í 30%, nákvæmlega í stíl fyrrverandi fjármálaráðherra.

Þegar harðnar í ári, neyðast fyrirtæki og heimili til að spara, svo að þau fari ekki á hausinn. Ríkisvaldið virðist ófært um að herða sultarólina með sama hætti, jafnvel þótt svokallaðir einkavæðingarmenn séu við völd. Ríkið er orðið að óviðráðanlegu náttúruafli.

Þetta birtist í nýju fjárlagafrumvarpi sem framhald á hallarekstri ríkisins, þrátt fyrir aukna fjárheimtu í formi svonefndra þjónustugjalda. Skýrar getur einkavæðing og frjálshyggja ekki orðið gjaldþrota. Hraðar getur stefna nýrrar ríkisstjórnar ekki orðið gjaldþrota.

Ofan á allt þetta getuleysi stendur ríkisstjórnin fyrir alvarlegum tilfærslum innan báknsins. Þetta eru tilfærslur frá velferðarkerfi heimilanna til velferðarkerfis landbúnaðarins. Í frumvarpinu eru milljarðar fluttir frá sjúklingum, barnafólki og skólafólki til kúa og kinda.

Ríkisstjórnin mun reyna að verja mikla og óvenjulega útþenslu landbúnaðarútgjalda sem einstakt tilfelli, er sé liður í endurskipulagningu og verði bara þetta eina ár. Slíka markleysu höfum við heyrt hundrað sinnum áður, þegar talað er um álögur, sem séu tímabundnar.

Við stöndum andspænis því, að verðmætabrennsla í hefðbundnum landbúnaði heldur áfram að vaxa, hvort sem Framsóknarflokkurinn er í ríkisstjórn eða ekki, alveg eins og ríkisgeirinn í heild heldur áfram að vaxa, hvort sem Alþýðubandalagið er í stjórn eða ekki.

Þetta stafar af, að ríkisstjórnina skipa miðstýringarmenn, öðru nafni framsóknarkommar, sem eru að því leyti hættulegri en Steingrímur Hermannsson og Ólafur Ragnar Grímsson að þeir villa á sér heimildir, telja kjósendum trú um, að þeir hafi annað og þveröfugt í hyggju.

Blekkingar hafa löngum verið hornsteinn íslenzkra stjórnmála, en fátítt er, að ríkisstjórn hafi logið sig inn á þjóðina með jafn grófum hætti og þessi ríkisstjórn, sem upphaflega var orðuð við frjálshyggju og einkavæðingu. Ef kjósendur kyngja henni, munu þeir kyngja öllu.

Í sínu fyrsta fjárlagafrumvarpi hefur þessi ríkisstjórn miðstýringarmanna sameinað framhald á hallarekstri ríkisins; aukna fjárheimtu á hendur almenningi og atvinnulífi; og aukinn hraða í tilfærslunni úr velferðarkerfi heimilanna til velferðarkerfis landbúnaðarins.

Ríkisstjórnarstefna frumvarpsins leiðir til ófriðar á vinnumarkaði, síðan til verðbólgu, næst til gengisfrystingar og loks til hruns. Þjóðin hefur ekki ráð á henni.

Jónas Kristjánsson

DV