Louisiana er meira virði en klukkustundar skyndiheimsóknar, sem lýst var hér að framan í ferðinni um Sjálandsbyggðir. Betra væri að hafa aflögu heilan daga til að skoða safnið, sem er eitt hið notalegasta í heiminum.
Safnið er í mörgum samtengdum sölum og glergöngum, sem mynda stóran hring í fögrum garði við Eyrarsund. Salirnir eru byggðir út frá nítjándu aldar herragarði, sem Alexander Brun lét reisa. Hann var þrígiftur og hétu allar konur hans Louise. Því nefndi hann bústaðinn Louisiana og hefur nafnið flutzt yfir á safnið, sem stofnað var 1958.
Safnið nær yfir innlenda og alþjóðlega list nútímans, það er að segja eftirstríðsáranna. Ýmis söfn í helztu heimsborgunum hafa meira úrval listaverka nútímans, en safngripir Louisina eru vel valdir og búa við skemmtilegra umhverfi en munir í söfnum á borð við Museum of Modern Art í New York.
Í góðu veðri er ánægjulegt að rölta um höggmyndagarðinn innan í safnhringnum og skreppa niður í skógarbrekkuna, er liggur niður að Eyrarsundi og anda að sér sjávarlofti. Hægt að matast undir beru lofti eða fá sér hressingu, því að veitingasalur er á svæðinu. Enginn vandi er að láta heilan dag líða hjá í Louisiana.
Safnið er ekki hvað sízt þekkt fyrir höggmyndir. Venjulega falla slík verk í skugga málverka á söfnum. Hér njóta þær hins vegar forgangs og þess er gætt, að þær hafi nóg rými í garðinum, svo að þær njóti sín vel við eðlilega lýsingu úti í náttúrunni.
Í hryssingsveðri má líka virða fyrir sér verkin innan frá, því að þau eru nálægt glerveggjum safnskálanna. Falla þau þá vel inn í grænan ramma grass og trjáa. Þess vegna er gott veður ekki nauðsynleg forsenda heimsóknar í Louisiana, þótt auðvitað sé það heppilegra.
Þarna eru verk ýmissa helztu höggmyndasmiða heims. Næst aðaldyrunum eru listaverk eftir Jean Arp. Síðan koma höggmyndir Max Ernst, þá Henry Moore, Joan Miró og loks Alexander Calder. Hver þessara listamanna hefur dálítið svæði út af fyrir sig. Einnig eru í safninu höggmyndir eftir Nobuo Sekine og Alberto Giacometti. Þrettán verk hins síðastnefnda eru raunar eitt helzta tromp staðarins.
Hvergi í Danmörku er betra safn nútímalistar. Glyptoteket og Ríkislistasafnið í
Kaupmannahmabili hinna frönsku málara frá 1850-1920. Abstrakt list er til dæmis ekki til öfn skilja að mestu við hana, þegar lýkur tísýnis í þessum tveimur merku söfnum. Hennar þarf að leita í Louisiana.
Safnið skiptist í deild fastra og breytilegra sýningargripa. Í föstu deildinni má fyrst nefna Cobra-hópinn, þar á meðal Svavar Guðnason, sem á tvö verk í Louisiana. Ennfremur nokkra abstrakt-frömuði á borð við Vassily Kandinsky, Victor Vasarely, Jean Devasne og Auguste Herbin. Eitt verk er eftir Erró, “Rauði síminn”. Þriðji íslenzki fulltrúinn er Sigurjón Ólafsson.
Af listamönnum sjötta áratugsins má nefna áðurnefndan Giacometti, svo og Jean Dubuffet, Francis Bacon, Yves Klein, Lucio Fontana og Sam Francis. Fulltrúar sjöunda áratugsins eru meðal annarra JeanTinguely og César. Frá sama tíma eru poppararnir Roy Lichtenstein, Robert Rauschenberg og Andy Warhol. Gisnara er um listamenn, sem einkenna áttunda og níunda áratuginn.
Athyglisvert er, að Louisiana er ekki í opinberri eigu og nýtur lítils sem einskis beins stuðnings ríkisins. Safnið er sjálfseignarstofnun, sem nýtur gjafmildi einstaklinga, fyrirtækja og stofnana, svo sem Carlsberg-sjóðsins, sem kostar kaup á einu meginlistaverki á hverju ári.
Louisiana er samspil náttúru, byggingalistar og nútímalistar. Salirnir hafa verið reistir smám saman á þremur áratugum. Þeir eru hver með sínu sniði, sumir lágir og breiðir, aðrir háir og mjóir, en falla samt inn í samræmda heild, þar sem þess er gætt, að byggingar beri listaverk og náttúru ekki ofurliði.
Talsvert er um tónleika, bíósýningar, umræðufundi, leiksýningar og bókmenntaupplestur í safninu, einkum um helgar. Ferðamenn geta fyrirfram kynnt sér, hverjar eru slíkar uppákomur og tímabundnar listsýningar.
Það er ánægjulegt að líta inn í Louisiana, en stórkostlegt að geta gefið sér þar góðan tíma.