Ógæfuspor

Greinar

Ef ríkisstjórnin væri raunverulega andvíg búvörusamningnum, sem fyrri ríkisstjórn gerði í andarslitrunum, mundi hún afla sér lögfræðiálits, sem segði hana ekki bundna af honum. Hún léti þennan samning ekki standa í vegi skynsamlegra aðgerða í ríkisfjármál-um.

Þótt ríkislögmaður segi þennan samning heilagan, er hann ekkert færari lögmaður en ótal aðrir hér í bæ. Enda var það yfirlýst skoðun og afsökun ráðherranna, sem skrifuðu undir samninginn í vor, að endurskoða mætti hann eftir valdatöku nýrrar ríkisstjórnar.

Búvörusamningur þessi gerir ráð fyrir stórfelldri aukningu ríkisútgjalda til velferðarkerfis landbúnaðarins. Þessi aukning er svo mikil, að hún nægir til að útskýra allan niðurskurð, sem gert er ráð fyrir á öðrum sviðum í nýútkomnu fjárlagafrumvarpi fyrir 1992.

Ríkisstjórnin telur einfaldara fyrir sig að skera niður skóla og heilbrigðisstofnanir og ýmsa þætti velferðarkerfis heimilanna en að horfast í augu við velferðardrekann mikla, sem sogar allt blóð úr þjóðfélaginu. Velferð heimilanna víkur fyrir velferðarkerfi landbúnaðarins.

Þetta er pólitísk ákvörðun, en ekki lögfræðileg. Hún byggist á tveimur staðreyndum. Í fyrsta lagi er Sjálfstæðisflokkurinn í rauninni framsóknarflokkur. Og í öðru lagi er Alþýðuflokkurinn fyrst og fremst hagsmunabandalag nokkurra manna um ráðherrastóla.

Ef ríkisstjórnin hefði ætlað sér að snúa af hörmungabraut fyrri ríkisstjórnar, hefði hún ráðist til atlögu við þrjú vandamál, þar á meðal búvörusamninginn mikla. Hún hefði einnig snúið sér að leiðum til að fjármagna skuldbindingar vegna lífeyris- og atvinnuvegasjóða.

Ríkið er þegar búið að hlaða upp lífeyrisgreiðslu- loforðum upp á 50-60 milljarða króna, þótt nú verði ákveðið að bæta ekki meiru við. Ástandið er orðið þannig, að opinberir starfsmenn þyrftu að borga 25% af launum sínum til að standa undir ellilífeyri sínum.

Ríkið er þegar búið að ábyrgjast greiðslur á 5-8 milljörðum króna, sem brenndir hafa verið í atvinnuvegasjóðum af ýmsu tagi, svo sem Atvinnutryggingasjóði, Framkvæmdasjóði, Byggðasjóði og fleiri slíkum, sem einu nafni hafa verið kallaðir Sjóðasukkið.

Ríkisstjórninni ber auðvitað að leggja fram áætlun um, hvernig vitleysa lífeyrissjóðanna og atvinnuvegasjóðanna verði greidd niður á einhverju árabili. Í fjárlagafrumvarpi næsta árs bar henni að gera ráð fyrir greiðslu fyrstu afborgana af sjóðasukkinu tvíþætta.

Augljóst er, að eina leiðin til að koma reglu á fjárhag ríkisins er að létta af því byrðunum af velferðarkerfi landbúnaðarins og nota sparnaðinn til að greiða niður skuldir, sem nú er haldið utan við fjárlagafrumvarp til að trufla ekki þægilegar niðurstöðutölur þess.

Í stað þess að takast á við þetta, lætur ríkisstjórnin sem sjóðavandamál lífeyris og atvinnuvega séu ekki til og magnar þar á ofan fjáraustrið í velferðarkerfi landbúnaðarins í stað þess að minnka það. Til að greiða það gerir hún harða hríð að velferð heimilanna í landinu.

Engin þjóðarsátt verður um verk ríkisstjórnar, sem stígur fyrstu sporin á jafn ógæfusaman hátt og þessi stjórn gerir með sáttmála sínum og fjárlagafrumvarpi.

Jónas Kristjánsson

DV