Gullni haninn

Veitingar

Gullni haninn við Laugaveg ofanverðan er fínlegt veitingahús með fyrsta flokks mat og fyrsta flokks þjónustu. Hann er í hópi þeirra matstaða, sem gera Reykjavík að marktækri veitingaborg, hæfilega lítill og hæfilega vel vaktaður af eigandanum.

Gullinn staður
í eyðimörkinni

Langan tíma hefur tekið að vinna upp Gullna hanann, sem er á næsta ótrúlegum stað, sem sést illa frá götu vegna bílastæðanna fyrir framan. Þarna var einu sinni Smárakaffi með eftirminnilega vondan mat og síðan Halti haninn með pizzur.

Þetta svæði í bænum er hálfgerð eyðimörk, en með þolinmæði hefur tekizt að koma lífi í viðskipti Gullna hanans. Það er jafnvel ös kaupsýslumanna í hádeginu, þótt slíkt sjáist óvíða í veitingahúsum borgarinnar á þessum síðustu og verstu tímum.

Gullni haninn hefur frá upphafi verið fremur virðulegur, en ekkert sérstaklega smekklegur. Fatahengið er nokkuð áberandi innan um fínheitin og barinn er skræpulegur. Sem betur fer sést lítið inn í hann úr salnum.

Þarna er fremur hljóðbært, þótt teppi sé á gólfi og panill upp á veggi. Mikill kostur var þó, að engin niðursuðutónlist dunaði á eyrum. Nokkuð næðingssamt getur orðið á borðinu, sem er fremst innan við anddyrið, ef mikill er gestagangur. Ættu gestir að forðast það borð, ef hvasst er úti.

Sjaldséðir
sjávarréttir

Gullni haninn hefur hallað sér æ meira að nýfrönsku línunni. Litlir skammtar af margvíslegum fisktegundum eru fagurlega upp settir á diska. Boðið er upp á furðudýr hafsins á borð við háf og skrápflúru og slétthala.

Því miður eru hinir forvitnilegu fiskréttir á fastaseðli hússins og þurfa því alltaf að vera til. Þeir hljóta því stundum að koma úr frysti. Slíkt hlýtur að minnsta kosti að henta skrápflúru afar illa, þótt háfurinn þoli það líklega betur.

Í raun hef ég aldrei rekið mig á annað en góða fiskrétti í Gullna hananum, þrátt fyrir þennan annmarka. Kannski hef ég verið heppinn með daga, þegar vel hefur aflazt.

Í hádeginu er boðinn þrírétta máltíð á 1100 krónur að meðaltali. Það er mjög hagstætt verð, því að réttirnir eru að mörgu leyti spennandi og ekkert er gefið eftir í þjónustu eða öðrum aðbúnaði gesta.

Af þessum seðli prófaði í forrétti ég afar fínlegan lunda, ofnreyktan, og borinn fram með mildri karamellu-jógúrtsósu. Ennfremur góða, villikryddaða svartfuglsbringu með eplasalati.

Meðal aðalrétta þessa seðils var fremur góður skötuselur, pönnusteiktur í smjöri með tómati, lauk og papriku, og borinn fram með hæfilega soðnum katöflum. Einnig meyr og góður grísapottréttur með sætsúrri og bragðsterkri sósu og afar bragðgóðum náttúru-hrísgrjónum.

Af eftirréttunum prófaði ég fremur góða osta á blönduðum diski, borna fram með rifsberjasultu. Einnig rjómafrauð með daufum ananaskeim, borið fram í súkkulaðigrind, með ávöxtum í kring.

Frábær
blaðdeigskarfa

Á kvöldin er verðið mun hærra eða eins og gengur og gerist í hinum fínni stöðum borgarinnar. Miðjuverðið er um 3113 krónur fyrir þrjá rétti og kaffi. Engir réttir dagsins eru þá í boði, aðeins réttir af fastaseðli og svo fjögurra rétta smakkseðill á 3.650 krónur, sem er nokkuð dýrt.

Vínlistinn er ekki merkilegur. Þar má eins og víðar sjá Chateau Beau Rivage í hvítu og rauðu, heilu og hálfu. Rauðvínið var frá 1986, fremur gróft, en gott. Hvítvínið var frá 1989, afar dauft og einkennislítið.

Í fína kantinum er boðið upp á hágæðavínið Chateau Mouton Rotschild frá 1984 á 9.890 krónur og á Chateau Clerc-Milon frá 1987 á 3.940 krónur. Þetta tel ég vera fremur hagstætt verð, enda eru árgangarnir svo sem ekkert sérstakir.

Rjómasúpa með ferskum kjörsveppum var hæfilega þunn og bragðmild. Reyktur háfur með fenniku og sólselju var góður, en svo lítill að magni, að hann sást varla. Með honum var mild sósa og gott salat einfalt.

Bezt forréttanna var frábær blaðdeigskarfa fyllt af eldsteiktu humarkjöti með koníakssósu. Karfan var næfurþunn og stökk, full af hæfilega lítið soðnum og góðum humri, borin fram með hrísgrjónum, sem voru afar góð eins og venjulega á þessum stað.

Ristaður háfur með rabarbara, blaðlauk og reyktum lax var óvenjulegur aðalréttur með óvenjulegu bragði, sem mér fannst gott, en öðrum kann að falla miður í geð. Heilsteikt skrápflúra með búgundarvínsósu var mátulega elduð og áberandi góð á bragðið. Appelsínugljáð skötubörð með piparbasilikum-sósu voru fremur góð, en appelsínubragðið yfirgnæfði réttinn.

Piparsteik með grænum pipar og sinnepssósu var mjög meyr, fínleg og góð.

Dúndurgóðir
ísar

Í boði voru góðir og fjölbreyttir ísar, salthnetuís með súkkulaðisósu og frábær konfektís með sykurflossi. Ennfremur súkkulaði- og ananasfrauð með því sérkenni, að súkkulaðifrauðið var grjóthart og ananasfrauðið fljótandi, en eigi að síður góður réttur. Tveggja bragða ískrem með ferskum ávöxtum var nokkuð gott.

Venjulegt kaffi var gott, espresso fremur þunnt, en ódýrt, aðeins 100 krónur bollinn.

Ánægjulegt er að sjá íslenzkt fyrirtæki seiglast fram veg gæfunnar og bæta sig stöðugt í stað þess að fara af stað með látum og lyppast svo niður. Gullni haninn virðist vera að festa sér traustar rætur í þjóðlífinu.

Jónas Kristjánsson

DV