Við megum ekki slóra of lengi. Við yfirgefum Helsingjaeyri á vegi A3 og beygjum inn á A6 eftir sex kílómetra akstur. Við komum eftir 20 mínútur að nýjum áningarstað, sveitasetri Danadrottningar, Fredensborg. Þessi “höll friðarins” er opin almenningi í júlí, en hinn mikli hallargarður allt árið. Vegvísarnir að höllinni eru merktir “Fredensborg Slot”, því að þorpið sjálft heitir Fredensborg.
Fredensborg var reist 1719-26 á vegum Friðriks IV konungs í ítölskum stíl. Hún var eins konar miðpunktur Evrópu á tímum Kristjáns IX, sem var kallaður tengdafaðir Evrópu. Hér hélt hann sumarveizlur ættingjum sínum og tengdafólki, þar á meðal Alexander III Rússakeisara og Játvarði VII Bretakonungi.
Við ökum svo áfram A6 tíu mínútna veg gegnum Gribskov, einn stærsta skóg Danmerkur, til Hillerød. Þar fylgjum við vegvísum til hins volduga og glæsilega kastala, Friðriksborgar, sem Friðrik II konungur lét reisa 1560 í hollenzkum endurreisnarstíl. Sonur hans, Kristján IV, sem fæddist hér, lét breyta höllinni og endurbæta 1602-20.
Friðriksborg er raunar mun skoðunarverðari en Krónborg. Hún er meiriháttar þjóðminjasafn með afar skrautbúinni kapellu, þar sem er hásæti og orgel frá 1610. Aðalsalur kastalans er einnig skartlegur í meira lagi. Hér voru konungar Danmerkur krýndir, meðan sá siður hélzt. Á safninu er ótrúlegur fjöldi málverka og gamalla húsmuna.