7. Danmörk – Óðinsvé

Borgarrölt

Óðinsvé

Sank Knuds kirke, Odense, Fyn

Sankt Knuds kirke

Brátt erum við komin á fulla ferð á A1/E66 skamman, 29 km spöl til Odense. Það er þriðja stærsta borg Danmerkur, ein hin elzta á Norðurlöndum. Óðinsvé hafa verið biskupssetur frá 1020. Frægust er borgin þó fyrir son sinn, ævintýraskáldið H. C. Andersen. Við förum beint í borgarmiðju, þar sem við getum lagt bílnum neðanjarðar, undir torginu, sem er andspænis Sankt Albani Kirke.

Fyrst förum við af torginu framhjá ráðhúsinu og Sankt Knuds Kirke, sem er frá miðri 13. öld, ein hinna mikilvægari kirkna landsins í gotneskum stíl. Þar eru grafir nokkurra danska konunga og drottninga. Kirkjan er stílhrein, sérstaklega að innanverðu. Örstuttu handan kirkjunnar er Munkemøllestræde, þar sem er bernskuheimili H. C. Andersen.

Under lindetræet & H.C. Andersen museum, Odense, Fyn

Under lindetræet & H.C. Andersen museum

Við hörfum til baka að Sankt Albani Kirke og förum inn í Overgade, Bangsboder, Jensensstræde, Ramsherred og Sortebrødretorv, sem mynda gamalt þorp innan í borginni. Í Jensensstræde 39-43 er H. C. Andersen safnið. Þar eru sýndir persónulegir munir hans, bækur og teikningar.

Andspænis safninu, við Ramsherred 2, er veitingastofan Under Lindetræet, hentug fyrir aðdáendur rithöfundarins og bauð okkur raunar ágætis hádegissnarl. Þeir, sem vilja borða í fornlegu andrúmslofti og gera sér ekki rellu út af matnum, geta snætt í Den Gamle Kro í Overgade 23, sími (09) 12 14 33. Það er bindingshús frá 1683, byggt umhverfis húsagarð, og hefur verið veitingastaður síðan 1771.

Næstu skref