Hatchards
Við förum nú yfir götuna og göngum stuttan spöl til baka, unz við komum að sundinu Princess Arcade, sem liggur út á Piccadilly. Þetta er eitt af mörgum göngusundum smáverzlana í borginni. Úti á Piccadilly beygjum við til vinstri og komum strax, á nr. 187, að Hatchards, elztu bókabúð borgarinnar, á þessum stað frá 1767. Hér eru yfir 350 þúsund bókatitlar á fjórum hæðum. Andrúmsloftið er einkar notalegt fyrir bókaorma, sem hafa nógan tíma.
Fortnum & Mason
Við höldum áfram nokkur skref suðvestur Piccadilly og staðnæmumst við Fortnum & Mason á nr. 181. Það er hin hefðbundna sælkerabúð borgarinnar og matvöruverzlun drottningarinnar. Sérgrein staðarins er alls konar niðurlagður og -soðinn matur í krukkum og dósum, þar á meðal ótal sultur. Í rauninni stenzt verzlunin engan samjöfnuð við Harrods, en er heimsóknar virði, af því að andrúmsloftið er óviðjafnanlegt í þessari verzlun frá átjándu öld, þar sem afgreiðslumenn klæðast enn kjólfötum. Á efri hæð er annar varningur en matur.