Asprey
Nú skiptir gatan um nafn og heitir hér eftir New Bond Street. Hinum megin hennar komum við brátt, á nr. 167, að Asprey, einum þekktasta gullsmið borgarinnar, með mörgum vænum gluggum út að götu. Og auðvitað er hann konunglegur hirðgullsmiður.
Holland & Holland
Áfram höldum við norður New Bond Street og tökum smákrók inn í Bruton Street, þar sem byssusmiðirnir Holland & Holland eru á nr. 33. Þar getum við, eins og hertoginn af Edinborg, fengið afar dýrar veiðibyssur með hálfs fjórða árs afgreiðslufresti. Um leið getum við litið yfir götuna og virt fyrir okkur, hversu mjög hin gamla krá Coach & Horses stingur í stúf við sviplaus nútímahúsin.
Wildenstein
Aftur förum við til New Bond Street og göngum hana áfram til norðurs. Hérna megin götunnar, rétt við hornið, á nr. 147, er einn allra frægasti fornmálverkasali heimsins, Wildenstein, sem veltir frægum nöfnum fyrir háar summur. Andspænis, á nr. 26, er Tessiers, ein elzta og þekktasta verzlun fornra gull- og silfurmuna.
Áhugafólki um forngripi skal bent á, að heila bók af þessari stærð mætti skrifa um einar sér hinar frægu forngripasölur í London.
Sotheby´s
Hér aðeins ofar, hægra megin götunnar, á nr. 35, er Sotheby´s, annar af tveimur heimsfrægum uppboðshöldurum borgarinnar. Þessi er raunar eldri og stærri, heldur yfir 500 uppboð á ári og hélt uppboð á geirfuglinum og Flateyjarbók. Munirnir eru til sýnis í eina viku fyrir uppboð og sýningarskrár eru til mánuði fyrir þau. Mánudaga eru boðnar upp bækur, smávörur og gler, þriðjudaga bækur og postulín, miðvikudaga málverk, fimmtudaga silfur og skartgripir, föstudaga húsgögn og listmunir.
Smythson
Nú fer að fækka hinum gamalgrónu bezku verzlunum við götuna og að fjölga hinum alþjóðlegu, sem eru útibú frá París og Róm. Við erum senn komin að Grosvenor Street, þvergötu til vinstri, þar sem hundrað metrar eru að skrifstofu Flugleiða á nr. 73. Ef við hins vegar höldum New Bond Street áfram til norðurs, komum við strax að pappírsvörubúðinni Smythson hægra megin götunnar, á nr. 54. Þessi verzlun drottningarinnar sérhæfir sig í furðulegu og hugmyndaríku bréfsefni og jólakortum. Þar má finna marga skemmtilega gjafavöru.