Marklausir með lífsstíl

Greinar

Þegar illa árar, reynir mest á forustuna. Þá er gott að hafa stjórnskörunga á borð við Winston Churchill, sem rísa hæst, þegar þrautirnar eru mestar, og hrífa fólk með sér til sameiginlegra átaka gegn aðsteðjandi erfiðleikum. Slíka vantar okkur núna í kreppunni.

Við höfum hins vegar fjármálaráðherra, sem er búinn að setja um bílafríðindi ráðherra nýja reglugerð, er felur í sér frávik frá því, sem gildir um aðra forstjóra í þjóðfélaginu, og leiðir til, að ráðherrar borga ekki nema fjórðung af því, sem ríkisskattstjóri taldi rétt.

Þegar þessi sami fjármálaráðherra kemur með mæðusvip í sjónvarp og segir ástandið svo alvarlegt, að allir hópar þjóðfélagsins þurfi að leggja sitt af mörkum, er ekki ljóst, hvort rétt sé að hlæja eða gráta. Þarna er á ferð marklaus maður með marklausa prédikun.

Það er einmitt einkennisgalli núverandi rikisstjórnar, að hún sáir ekki trausti í hjörtu fólks. Hún er ekki skipuð stjórnskörungum, sem geta fengið þjóðina til að taka möglunarlítið á sig nýjar byrðar. Hún er skipuð eiginhagsmunastrákum, sem ekki njóta virðingar.

Hinn einkennisgalli ríkisstjórnarinnar er, að ráðherrar virðast telja starf sitt vera léttara en það er í raun. Þeir virðast fremur líta á ráðherratignina sem eftirsóttan lífsstíl en sem verkefni, sem þurfi að fást við. Þeir eru að leika ráðherra en ekki að starfa sem ráðherrar.

Þetta lýsir sér í, að verk ríkisstjórnarinnar reynast illa unnin, þegar þau koma fyrir Alþingi. Hún leggur fram bandorm tillagna um álögur út og suður og niðurskurð út og suður án þess að hafa rætt málin við þá aðila, sem helzt eiga að sæta álögum og niðurskurði.

Þegar virðingarlítil ríkisstjórn vinnur verk sín illa, mætir hún andófi og uppreisn utan þings og innan. Hennar eigin þingmenn hlaupa í allar áttir undan ábyrgðinni af verkum hennar. Afleiðingin er, að bandormur hennar um álögur og niðurskurð fer út um þúfur.

Ráðherrar verða að láta undan síga og falla frá hverju málinu á fætur öðru; falla frá tilfærslu kostnar af málum fatlaðara til sveitarfélaga, falla frá auknum skólagjöldum, falla frá frestun jarðgangna á Vestfjörðum, falla frá verulegum hluta af minnkun sjómannaafsláttar.

Það hriktir í flestum þáttum bandormsins nema niðurskurði barnabóta, af því að barnafólk á sér ekki málsvara á borð við þá, sem berjast gegn álögum og niðurskurði á öðrum sviðum. Hvert á fætur öðru bila áform ríkisstjórnarinnar um minni taprekstur ríkisins.

Komið hefur í ljós, að ráðherrarnir hafa meira eða minna látið hjá líða að tryggja málunum stuðning eða hlutleysi. Sveitastjórnir og samtök þeirra höfðu ekki hugmynd um ráðagerðir ríkisstjórnarinnar á þeirra sviði fyrr en þær birtust í margumræddum bandormi.

Þannig fer tvennt saman hjá ríkisstjórninni. Hún vinnur ekki verk sín af nauðsynlegri kostgæfni til að tryggja þeim brautargengi. Og hún nýtur ekki þeirrar virðingar innan og utan þings, að menn víki úr vegi til að auðvelda henni að koma málum sínum fram.

Svona fer fyrir strákum með lífsstíl. Svona fer fyrir þeim, sem gæta þess vendilega að leggja ekki niður dagpeningakerfi, sem er ferðahvetjandi fyrir ráðherra, af því að þeir vilja ekki draga úr lífsstíl sínum. Þeir halda lífsstíl sínum, en glata trausti og virðingu annarra.

Verst er, að ráðherrarnir virðast sáttir við þá stöðu, að þeir séu að leika ráðherra, án þess að mark sé tekið á þeim, svo framarlega sem þeir fái bara að leika sér.

Jónas Kristjánsson

DV