Gegn Serbíu-Hitler

Greinar

Samkvæmt yfirlýsingu utanríkisráðherra mun Ísland fylgja í kjölfar Þýzkalands og lýsa yfir í þessari viku, að Ísland muni með nótuskiptum viðurkenna Slóveníu og Króatíu sem sjálfstæð ríki, ef uppfyllt verði nokkur auðveld skilyrði um lýðræði og rétt minnihlutahópa.

Þýzkaland hefur raunar ekki sett nein skilyrði fyrir sinni viðurkenningu, enda má líta svo á, að Slóvenía og Króatía hafi þegar uppfyllt skilyrðin, að svo miklu leyti sem hægt er að ástunda lýðræði og mannréttindi, þegar verið er að verjast gegn landvinningastríði.

Tregðan við að viðurkenna Slóveníu og Króatíu segir ekki fagra sögu af áhuga vestrænna þjóða á lýðræði og mannréttindum í Austur-Evrópu. Útþenslustefna Serbíuforseta og serbneskra yfirmanna Júgóslavíuhers hefur óbeint verið studd sterkum öflum á Vesturlöndum.

Verstur er þáttur Bandaríkjastjórnar. James Baker utanríkisráðherra hefur margoft lýst stuðningi við kommúnistana í Júgóslavíu. Hann var í sumar á ferð þar til að vara Slóveníu og Króatíu við sjálfstæðisbrölti. Og nú neita Bandaríkin viðurkenningu.

Þetta minnir á, hversu treg Bandaríkin voru að viðurkenna Eystrasaltsríkin og hversu eindregið þau hafa stutt kommúnistann og fylgisleysingjann Gorbatsjov í varnarstríði hans gegn lýðræðisöflum í lýðveldum þess svæðis, sem áður var heimsveldið Sovétríkin.

Afstaða Bandaríkjastjórnar skýrir, hvers vegna Atlantshafsbandalagið, sem stofnað var til að hefta útbreiðslu kommúnismans í Evrópu, hefur orðið að horfa í aðgerðaleysi á vopnaða og blóðuga útþenslu síðustu móhíkana kommúnismans í Evrópu, stjórnenda Serbíu.

Aðild Javier Perez de Cuellar, forstjóra Sameinuðu þjóðanna, að Serbíubandalagi Bandaríkjastjórnar á síðustu vikum valdaferils hans verður ekki skýrð á neinn vitrænan hátt. Annaðhvort eru það elliórar eða þjónustulund gagnvart eina heimsveldinu, sem eftir er.

Þótt segja megi, að aldrei valdi einn, þegar tveir deili, er blóðbaðið í Króatíu fyrst og fremst af völdum Slobodan Milosevic Serbíuforseta. Hann er kommúnisti, sem hefur ræktað völd sín með því að beita aðferðum Hitlers og höfða til lægstu þjóðernishvata Serbíumanna.

Í blóðbaðinu er Serbíu-Hitler studdur af herforingjum, sem líka eru tilfinningalausir kommúnistar, og eru líka að bjarga starfi sínu, því að ekkert rúm eða fé er fyrir útblásinn her í þeim lýðveldum, sem eru að rísa á rústum ríkis, sem áður hékk saman á kommúnisma.

Það er út í bláinn, þegar ráðamenn í Bandaríkjunum, Sameinuðu þjóðunum og jafnvel í Evrópubandalaginu gefa í skyn, að þessir kommúnistar verði enn verri viðskiptis, ef Slóvenía og Króatía öðlast viðurkenningu. Þeir geta alls ekki orðið verri en þeir eru í raun.

Hitt er líklegra, að Milosevic og herforingjarnir leggi niður rófuna, ef Vesturlönd sýna einarðlega, að þau ætli ekki að láta þá komast upp með landvinningastríð sitt. Þeir eru að því leyti eins og Saddam Hussein, að þeir túlka sáttatilraunir sem vestræna linkind.

Bandaríkin, Nató og Sameinuðu þjóðirnar hafa svívirðu af máli þessu, en Evrópubandalagið sleppur fyrir horn á síðustu stundu. Og Ísland fyllir betri hópinn.

Jónas Kristjánsson

DV