Bjargvættur einokunar

Greinar

Utanríkisráðherra hefur álpazt til að verða helzti bjargvættur einokunar á Íslandi. Hann framlengdi hermangseinokun Íslenzkra aðalverktaka til fjögurra ára og hann framlengdi flugafgreiðslueinokun Flugleiða til fjögurra ára. Í báðum tilvikum var þetta tímaskekkja.

Almenningur eru betur upplýstur en áður um spillingu einokunar. Komið hefur í ljós, að 90% fólks hafna einokun Íslenzkra aðalverktaka og að 75% fólks vilja, að framkæmdir varnarliðsins verði boðnar út, fremur en að hermangið verði víkkað til fleiri gæludýra.

Flugafgreiðslueinokunin er ekki síður alvarleg. Á Keflavíkurvelli hafa Flugleiðir misnotað aðstöðuna til að hrekja á brott hvert útlenda flugfélagið á fætur öðru, sem hefur reynt að fljúga á ódýran hátt með íslenzkar sjávarafurðir til fjarlægra landa, svo sem til Japans.

Utanríkisráðherra var fyllilega kunnugt um, að þessar framlengingar voru báðar siðlausar. Honum var fyllilega kunnugt um, að hann gat brotið blað í sögunni með því að styðja réttlæti og markaðsbúskap, en hann kaus að leggja sitt lóð á vogarskál spillingar og sóunar.

Einokun af tagi Íslenzkra aðalverktaka og Flugleiða dregur úr sjálfsvirðingu þjóðarinnar og framleiðir rotnun í þjóðfélaginu. Um slíka einokun verður heldur aldrei neinn friður, því að svo mörgum er siðleysi hennar ljóst, að hún fær ekki endalaust að vera í friði.

Í báðum tilvikum hefur einokunargróðinn verið notaður til að búa til kolkrabba, sem seilist til áhrifa á öðrum sviðum í þjóðfélaginu. Þannig hafa Flugleiðir lagt undir sig vaxandi hluta ferðaskrifstofumarkaðarins, bílaleigumarkaðarins og hótelmarkaðarins.

Á sama tíma og utanríkisráðherra breiðir vængi sína yfir spillingu einokunar, er hreyfing í átt til afnáms einokunar. Fólk er vakna upp við vondan draum og sjá, að einkavæðing einokunarfyrirtækja ríkisins hefur í reynd leitt til stóraukinna útgjalda þjóðarinnar.

Mest er talað um dæmi Bifreiðaskoðunar Íslands, sem hefur farið hamförum í óbeizlaðri græðgi. Einnig hefur verið vakin athygli á, að einokun Sorpu veldur miklum kostnaðarauka í þjóðfélaginu, svo og að ekki er allt með felldu í tekjuöflunarkerfi Endurvinnslunnar.

Merkilegt er, að ráðamönnum þjóðarinnar skyldi detta í hug, að einkavæðing ríkiseinokunar væri til bóta. Það, sem er til bóta, er markaðsvæðing ríkisfyrirtækja. Hún gerist á þann hátt einan, að einkaréttur ríkisfyrirtækja er afnuminn um leið og þau eru seld.

Einkavæðing ein út af fyrir sig flytur spillinguna bara til hliðar og fyllir vasa gæludýra úti í bæ. En markaðsvæðing afnemur spillingu og eflir þjóðarhag. Þess vegna ber ríkinu að bjóða út framkvæmdir varnarliðsins og leyfa flugfélögum að afgreiða sjálf vörur sínar.

Utanríkisráðherra og blaðurfulltrúi hans segja, að afgreiðslueinokun á Keflavíkurvelli megi afnema, þegar komið verði á fót fríhöfn þar syðra. Orsakasamhengið er öfugt. Smám saman verður unnt að rækta fríhöfn, eftir að einokun á þessu sviði hefur verið afnumin.

Utanríkisráðherra framlengdi einokunarsamninga gæludýra sinna, einmitt þegar þjóðin á í miklum erfiðleikum og þarf að skera niður þjónustu á mörgum sviðum, svo sem í heilsugæzlu og menntamálum. Þetta sýnir vel, hver er forgangsröðin í þjóðfélaginu.

Framlengingarnar á Keflavíkurvelli eru dæmi um, að ráðherrar taka þrönga og spillta hagsmuni gæludýra fram yfir almannahagsmuni og almannasiðferði.

Jónas Kristjánsson

DV