Gestapó nútímans

Greinar

Ísraelsríki hefur valtað yfir friðargæzlulið Sameinuðu þjóðanna í Líbanon alveg eins og það valtaði yfir Davíð Oddsson forsætisráðherra í opinberri kurteisisheimsókn hans. Ráðamenn Ísraels láta sig litlu varða um lög og hefðir í alþjóðlegum samskiptum.

Fátítt er, að friðargæzlusveitir Sameinuðu þjóðanna verði fyrir árásum. Enda er slíkt ekki fallið til að auka möguleika á notkun slíkra sveita á viðkvæmum svæðum, sem nóg er til af í heiminum. Fordæmi Ísraels spillir fyrir möguleikum Sameinuðu þjóðanna í friðargæzlu.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á aldarfjórðungi. Gamlir hryðjuverkamenn hafa tekið völdin í Ísrael og njóta til þess almannastuðnings. Ríkið hefur á þessum tíma breytzt úr lýðræðisríki í hálfgert skrímsli, sem er til sífelldra vandræða í einstefnu eiginhagsmuna.

Ísraelsríki stundar dagleg hermdarverk á hernumdu svæðunum í Palestínu. Herflokkar fara um og drepa fólk, hneppa í varðhald og pynda það til dauða. Þeir aka jarðýtum yfir heimili fólks og ávaxtagarðana, sem eru lifibrauð þess. Þetta eru gestapó-sveitir nútímans.

Ógeðfellt er, að íslenzkur forsætisráðherra skuli hafa farið í opinbera heimsókn til þessara hryðjuverkamanna. Það er þó nokkur huggun, að hann skuli hafa fengið makleg málagjöld, af því að gestgjafar hans kunna ekki einföldustu reglur um hlutverk gestgjafa.

Á sama tíma og Ísrael krefst þess, að eltir séu uppi menn, sem grunaðir eru um hermdarverk fyrir hálfri öld, krefst ríkið þess í þágu hagsmuna sinna að fá að stunda hermdarverk í nútímanum. Það fordæmir 50 ára gamalt gestapó, en rekur sjálft daglegt gestapó.

Sjálfsagt er að reyna að koma lögum yfir einstaklinga, sem drýgðu fáheyrð fólskuverk fyrir hálfri öld. Hins vegar er fáránlegt af íslenzkum forsætisráðherra að taka við slíkum kröfum frá ríki, sem þverbrýtur alþjóðalög um meðferð fólks á hernumdum svæðum.

Ísrael er orðið að æxli í Miðausturlöndum. Það kemur í veg fyrir, að unnt sé að koma á vitrænni sambúð milli hins vestræna heims kristninnar og hins austræna heims íslams. Þetta hefur gerzt, af því að Ísrael hefur of lengi notið blinds stuðnings af hálfu Vesturlanda.

Ábyrgðin á breytingu Ísraels í eitt stórt og hamslaust ég-ég-ég hvílir fyrst og fremst á Bandaríkjunum. Þaðan hafa runnið peningarnir, sem hafa gert Ísrael kleift að gera að vild innrásir í nágrannaríkin og sem hafa gert Ísrael kleift að stunda landnám á hernumdum svæðum.

Með eindregnum stuðningi við vígvæðingu og útþenslu Ísraels hafa Bandaríkin valdið Vesturlöndum óbætanlegum vandræðum, sem eiga enn eftir að aukast í náinni framtíð. Bandaríkin hafa vakið upp hryðjuverkadraug, sem erfitt verður að kveða niður.

Ráðamönnum Vesturlanda ber af vaxandi þunga að gera ráðamönnum Bandaríkjanna grein fyrir, að stuðningur þeirra við Ísrael í deilum Miðausturlanda skaðar hagsmuni og hugsjónir Vesturlanda. Ísrael á að vera paríi á borð við Serbíu, Írak, Haiti og Burma.

Engar horfur eru á, að Ísraelsmenn hverfi til betri siða. Stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn þar í landi hefur nú skipt um leiðtoga. Í stað tiltölulega friðsams Peresar er kominn tiltölulega herskár Rabin. Þannig er þjóðfélag Ísraels smám saman að verða herskárra.

Okkur Íslendingum ætti raunar ekki að bera nein skylda til að halda stjórnmálasambandi við ríki, sem ekki er húsum hæft í fjölþjóðlegum samskiptum.

Jónas Kristjánsson

DV