Fjöldamorðingi látinn

Greinar

Einn mesti fjöldamorðingi eftirstríðsáranna dó á sóttarsæng í Bogota í síðustu viku. Það var Roberto d’Aubuisson, sem bar meira eða minna ábyrgð á morðum 40.000 borgara í El Salvador árin 1979-1985 og starfaði í skjóli öfgasinnaðra bandarískra stjórnvalda.

Sendiherra Jimmy Carters Bandaríkjaforseta í El Salvador sagði á sínum tíma, að d’Aubuisson væri geðveikur fjöldamorðingi. Eftir brottför Carters úr Hvíta húsinu fékk d’Aubuisson að leika lausum hala með fullum stuðningi og fjárhagsaðstoð Bandaríkjastjórnar.

Helztu verndarar d’Aubuissons voru Ronald Reagan, þáverandi Bandaríkjaforseti; George Bush, þáverandi varaforseti og núverandi forseti, og Jeane Kirkpatrick, þáverandi sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum og núverandi dálkahöfundur hjá Pressunni.

Meðal þeirra, sem d’Aubuisson lét myrða, voru Oscar Arnulfo Romero erkibiskup, bandarískar nunnur og bandarískir landnýtingarráðunautar. Mesta óbeit hafði hann á verkalýðsforingjum, læknum og öllum þeim, sem reyndu að hjálpa fátæka fólkinu í landinu.

Algengt var, að d’Aubuisson kæmi fram í sjónvarpi og réðist á nafngreinda einstaklinga. Nokkrum dögum síðar höfðu þeir allir verið drepnir af morðsveitum hans. Þannig var aðild hans á allra vitorði, þótt öfgamenn Bandaríkjastjórnar létu sér fátt um finnast.

Hinn geðveiki Roberto d’Aubuisson varð forseti þingsins í El Salvador og síðan forsetaframbjóðandi, enda var hann ekki minni ræðuskörungur en Hitler. Þegar hann dó í síðustu viku, var flokkur hans við völd í landinu, en hafði þá að mestu látið af morðum.

Hyldjúp gjá er milli ríkra og fátækra í El Salvador. Annars vegar eru landeigendur og annað auðfólk, en hins vegar er sauðsvartur almúginn. Yfirstéttin er svo hægrisinnuð, að hún telur það kommúnisma, ef læknir eða sjúkraliði reynir að hjúkra fátækum leiguliða.

Athyglisverð er samstilling hugarfarsins hjá þessari yfirstétt annars vegar og hinum róttæku hægrisinnum, sem um langt árabil hafa verið við völd í Bandaríkjunum. Af bandarískri hálfu er dálkahöfundurinn Jeane Kirkpatrick fulltrúi þessa sérkennilega hugarfars.

Þessi fyrrverandi sendiherra er kunnasti málsvari þeirrar stefnu Ronalds Reagans og George Bush, að mannréttindi skipti engu máli í samanburði við mikilvægi þess að berjast gegn kommúnisma í Rómönsku Ameríku og annars staðar í þriðja heiminum.

Samkvæmt þessari stefnu eru það morðingjarnir á hverjum stað, sem ákveða í samræmi við þarfir sínar, hvað sé kommúnismi og hverjir séu kommúnistar. Þess vegna hefur stefnan valdið ólýsanlegum hörmungum í Rómönsku Ameríku, bakgarði Bandaríkjanna.

Athyglisverðast í þessu samhengi róttækrar hægri mennsku í Bandaríkjunum og Rómönsku Ameríku er, að meðal auðstétta og landeignafólks í öllum löndum eru hópar, sem bera sjúklegt hatur í brjósti á fátæklingum og öllum þeim, sem hugsanlega gætu rýrt auðinn.

Í siðuðu samfélagi Vesturlanda fær þetta hatur ekki útrás á blóðugan hátt. En þar er þó hugarfarið að baki hið sama og í ofbeldis- og morðæði hliðstæðra hópa í Rómönsku Ameríku. Þetta eru hin raunverulega hættulegu öfl í þjóðfélaginu, einnig hinum vestrænu.

Bandaríkjastjórn hefur ekki reynt að bæta fyrir brot hins nýlátna vinar síns eða annarra skrímsla, sem hún hefur ræktað í bakgarði sínum í Rómönsku Ameríku.

Jónas Kristjánsson

DV