Puerta de Alcalá
Við göngum götuna alla leið til þvergötunnar Puerta de Alcalá, þar sem er sigurboginn Puerta de Alcalá (E3), reistur eftir teikningum Sabatinis á síðari hluta átjándu aldar til minningar um innreið Karls III í borgina. Torgið heitir Plaza de la Independencía.
Retiro
Hér af torginu förum við inn í norðvesturhorn hins græna lunga borgarinnar, Retiro-garðsins. Hann er afar stór, að umfangi eins og Hyde Park í London, en miklu meira ræktaður skógi. Þessi garður var upphaflea lagður á 17. öld sem hallargarður sumarseturs Filipusar IV, en var gerður að almenningsgarði seint á 19. öld.
Við förum framhjá stöðuvatninu Estanque, þar sem fólk rær um á skemmtibátum. Handan vatnsins er minnisvarði um Alfons XII, teiknaður í svipuðum brúðkaupstertustíl og minnisvarði Viktors Emanúels II í Róm.
Hér göngum við framhjá brúðuleikhúsi fyrir börn, spákonum, sem segja okkur framtíðina í Tarot-kortum, pylsusölum, vasaþjófum, bridgespilurum, kotrukörlum og skákmönnum, unz við komum að Palacio de Cristal, sem speglast í tjörninni fyrir framan.
Suðurhluti garðsins er afskekktari og þar má sjá heitar ástir og skrítna hunda. Við förum út um suðvesturhornið og göngum niður brekkuna Claudio Moyano. Þar á gangstéttinni eru fornbókasalarnir. Mest er um að vera hjá þeim á sunnudagsmorgnum, þegar borgarbúar gera sér dagamun í Retiro.