Sparnaður séra Jóns

Greinar

Engin vettlingatök duga, þegar rekstrarhalli fyrirtækis er kominn upp fyrir einn tíunda hluta af veltu þess. Vafasamt er, að einkafyrirtæki stæðist slíka raun í nokkur ár, enda gæti það ekki látið prenta fyrir sig peninga í Seðlabankanum eins og ríkið lætur gera.

Ríkissjóður var í fyrra rekinn með 11% halla, 12,5 milljörðum af 112 milljarða veltu. Í heild nam lánsfjárþörf hins opinbera 40 milljörðum króna. Sú tala ein nemur 11% af landsframleiðslu og er þá eftir að bæta við annarri lánsfjárþörf atvinnulífs og einkaaðila.

Við þessar óvenjulegu aðstæður er einkennilegt, að ríkisstjórnin og stuðningsflokkar hennar skuli kjósa að staðfesta búvörusamning, sem felur í sér meira en milljarðs raunaukningu á þessu ári í útgjöldum til uppbóta og uppbótaígilda af ýmsu tagi til landbúnaðarins.

Við þessar óvenjulegu aðstæður er einkennilegt, að ríkisstjórnin skuli kjósa að halda næstum fullum dampi á ferðahvetjandi launaaukum ráðherra, svo og á öðrum lúxusútgjöldum, sem tengjast kostnaði ríkisins við halda uppi ráðherrum á ferð og flugi um land og heim.

Við þessar óvenjulegu aðstæður er einkennilegt, að ríkisstjórnin skuli kjósa að láta skoða hið risastóra hús Sambands íslenzkra samvinnufélaga sem hugsanlega vistarveru heilbrigðisráðuneytisins, er hyggst færa út kvíarnar á sama tíma og það lokar deildum sjúkrahúsa.

Ofan á ýmsar slíkar furður hefur nú bætzt sú hugmynd, að ríkið taki þátt í að reisa og ábyrgjast hér á landi 40-100 milljarða verksmiðju til að framleiða sjóhelda rafmagnskapla. Er þetta virkilega rétti tíminn til að tala um upphæðir af svo stjarnfræðilegu tagi?

Milligöngumaður hins opinbera í máli þessu er hinn frægi eyðslufíkill, sem nefnist Landsvirkjun. Sú stofnun hefur afrekað að reisa heilt orkuver við Blöndu, án þess að fyrirsjáanlegur sé neinn kaupandi að orkunni. Orkunotendur borga mánaðarlega brúsann af Blönduruglinu.

Ef verkfræðingar úti í bæ fá góða hugmynd, er sanngjarnt og eðlilegt, að þeir útvegi sér fjármagn og framkvæmi hana í ábataskyni. Hins vegar er hættulegt að ónáða ólæknandi eyðslufíkla, ríkið eða Landsvirkjun, með slíkum hugmyndum ofan á fyrra sukk þeirra.

Af dæmunum, sem hér hafa verið rakin, má sjá, að ríkisstjórnin og flokkar hennar gera sér ekki fyllilega grein fyrir peningavandræðum ríkisins, jafnvel þótt fjármálaráðherra haldi mánaðarlegan blaðamannafund um þau og brýni þar fyrir mönnum sparnað og ráðdeild.

Svo virðist sem ráðherrar telji ríkið geta haldið ráðherrunum uppi með óbreyttum tilkostnaði, svo og sjálfum ráðuneytunum og húsakosti þeirra, en niðurskurður komi eingöngu fram í fremstu víglínu, í þjónustu ríkisins við almenning, svo sem sjúkrahúsum og skólum.

Svo virðist sem ráðherrar telji kýr og kindur svo heilaga gripi, að ástæða sé til að efla útgjöld þeirra um meira en milljarð á sama tíma og skorið er niður í þjónustu við almenning. Svona misræmi er ekki trúverðugt og stuðlar að því, að sparnaður náist ekki að fullu.

Við núverandi aðstæður þurfa allir að leggjast á eitt og hinir æðstu að feta á undan með góðu fordæmi. Ráðherrarnir verða að spara fyrst og mest, síðan sjálf ráðuneytin og loks þjónustustofnanir hins opinbera. Á þann hátt fæst þjóðin til að skilja stærð vandamálsins.

Og þegar árleg lánsfjárþörf hins opinbera er komin í 40 milljarða, er óheppilegt, að ráðherrar láti sig dreyma upphátt um 40-100 milljarða rafkapalverksmiðju.

Jónas Kristjánsson

DV