Holdanautin afskrifuð

Greinar

Nú er komið að lokum Galloway-martraðarinnar, sem hefur kostað skattborgara landsins meira en hundrað milljónir króna. Landgræðslustjóri hefur tekið af skarið, neitar að ala meira af slíkum nautgripum í Gunnarsholti og vill losna við þetta vandræðakyn úr ræktun.

Gunnar Bjarnason ráðunautur hafði rétt fyrir sér í þessu eins og ýmsu öðru, þegar hann mælti gegn því, að þetta lélega nautakyn yrði flutt til landsins og sett upp rándýr einangrunarstöð í Hrísey. Landbúnaðarkerfið hlustaði ekki á þessa gagnrýni frekar en aðra.

Komið hefur í ljós, að Galloway-gripir eru skapþungir og jafnvel illskeyttir í fjósi. Það veldur íslenzkum bændum nokkrum erfiðleikum og er meginástæða þess, að landgræðslustjóri og nautgripanefnd Búnaðarþings vilja nú falla frá hinum langvinnu mistökum.

Landbúnaðarkerfið hefur minni áhyggjur af hinu, sem er alvarlegra, að Galloway-kjötið er mun lakara en kjötið af gamla íslenzka nautakyninu. Landbúnaðarkerfið hefur löngum ætlazt til, að neytendur snæði það, sem að þeim er rétt, án þess að vera með múður.

Oft hefur verið bent á, að holdanautakjötið væri bæði seigt og vont. Í umsögnum DV um veitingahús hefur fólk verið varað við að panta nautakjöt, nema á þeim veitingastöðum, sem eingöngu bjóða feitt og annars flokks kjöt af hinu hefðbundna íslenzka nautakyni.

Það er annað dæmi um ruglið í landbúnaðarkerfinu, að ólseigir sultarskrokkar eru settir í fyrsta verðflokk, en feitir skrokkar með meyru kjöti eru settir í annan verðflokk. Svona haga menn sér, þegar þeir eru orðnir alveg sambandslausir við þarfir markaðarins.

Galloway-holdanautin voru aldrei miðuð við þarfir markaðarins. Ef hugað hefði verið um neytendur, hefði verið valið betra nautakyn, svo sem Angus, sem hefur rutt Galloway úr Bretlandi eða hið franska Charolais, sem margir telja bragðbesta nautakjöt í heimi.

Ef nú verður reynt að flytja nýtt nautakyn til landsins, er óþarfi að nota til þess rándýra einangrunarstöð í Hrísey, sem kostar í rekstri sjö milljónir króna árlega. Flytja má til landsins frjóvguð egg og hefja ræktunina í tilraunastöðinni á Keldum, þar sem aðstaða er góð.

Ímyndaðar öryggiskröfur voru notaðar til að kaupa atkvæði á Norðurlandi eystra, þegar ákveðið var að reisa einangrunarstöð í Hrísey. Koma þurfti upp húsakynnum og búnaði, sem þegar var til á Keldum, og ráða starfsfólk, sem ekki hefði þurft að ráða á Keldum.

Nokkrar verstu hliðar núverandi landbúnaðarkerfis komu fram í holdanautamálinu. Valið var úrelt kyn, sem útlendir bændur vildu ekki nota, mun lakara en það, sem til var fyrir hér á landi. Valið var kyn, sem valfrjálsir neytendur í öðrum löndum höfðu áður hafnað.

Þetta er miðstýrt kerfi, þar sem markaðslögmál eru að engu höfð. Nokkrir valdamiklir og ábyrgðarlausir karlar ákveða, hvaða nautakjöt Íslendingar eigi að borða og að styðja skuli í leiðinni byggð í Hrísey. Þeir ákveða í fílabeinsturni að kasta fé skattgreiðenda á glæ.

Þessir karlar í Bændahöllinni ákváðu, að nautgripir, sem eru vanir kulda og vosbúð á afskekktum og einangruðum heiðum í Skotlandi, hlytu að henta íslenzkum bændum, sem þó hafa gripi sína yfirleitt í sæmilega hlýjum fjósum. Á þessum grunni var búin til martröð.

Eftir meira en hundrað milljón króna tjón þjóðarinnar hefur svo komið í ljós, að enginn vill hafa neitt af holdanautunum að segja, hvorki neytendur né bændur.

Jónas Kristjánsson

DV