Plaça Sant Jaume
Við göngum beinustu leið til baka eftir Princesa, yfir Laietana og áfram eftir götunni Jaume unz við komum inn á borgartorgið Plaça Sant Jaume. Þar er stjórnarráð Katalúníu á hægri hönd og ráðhús Barcelona á vinstri hönd. Stjórnarráðið er mikil höll frá 15. öld, Palau de la Generalitat. Ráðhúsið á móti er frá 14. öld, Ajuntament.
Við skulum ganga eftir sundinu Calle Bisbe Irurita meðfram stjórnarráðinu að dómkirkjunni, sem við vorum áður búin að skoða. Á leiðinni er skemmtileg göngubrú í gotneskum stíl yfir sundið milli húsanna Generalitat og Canonges, þar sem eru skrifstofur formanns stjórnarráðsins. Í þessum höllum er stjórn Katalúníu önnum kafin við að efla sjálfstæði svæðisins gagnvart miðstjórnarvaldinu í Madrid.
Við erum nú komin aftur að dómkirkjunni og getum gertð öðrum kosti röltum við eftir göngusundunum og kynnum okkur Barri Gòtic í návígi. Ef við förum eftir sundunum Gegants og Avinyó, göngum við framhjá veitingahúsunum Agut d’Avinyó og El Gran Café. Við tökum almennt stefnuna til suðausturs og endum niðri við höfn. Á leiðinni förum við yfir götuna Ample, þar sem er hótelið Metropol og veitingastaðurinn El Túnel.