Flæmingur og skætingur

Greinar

Verðlagsstjóri fer undan í flæmingi, þegar hann er spurður um óvenjulega viðskiptahætti Mjólkursamsölunnar í Reykjavík, og hann fer undan í skætingi, þegar hann telur sig þurfa að svara rökfastri gagnrýni á verðmyndun afurða frá vinnslustöðvum mjólkuriðnaðarins.Verðlagsstjóri hefur löngum verið hallur undir milliliði landbúnaðarins. Hann hefur að mestu látið þá í friði, þótt hvergi sé meiri ástæða til að halda uppi varðgæzlu fyrir neytendur vegna verðstýringar, samkeppnishamla og vafasamra viðskiptahátta af ýmsu tagi.

Verðlagsstjóri taldi á sínum tíma Grænmetisverzlun landbúnaðarins vera utan verksviðs síns, þótt hún væri illræmdust allra einokunarstofnana. Hann tók með silkihönskum á margföldun eggjaverðs í skjóli einokunar, sem komið var á fót fyrir rúmlega fjórum árum.

Vinnuregla verðlagsstjóra hefur verið að hafa ekki frumkvæði að rannsóknum og eftirliti á verðmyndun og viðskiptaháttum milliliða landbúnaðarkerfisins og láta draga sig með semingi út í slíkt, ef ekki verður undan vikizt vegna krafna frá fórnardýrum þessa kerfis.

Verðlagstjóri varði að eigin sögn tveimur dögum í síðustu viku í að hlusta á varnir Mjólkursamsölunnar, áður en hann gaf sér tíma til að hlusta á vitni þeirra aðila, sem sökuðu einokunarstofnunina um óheiðarlegar tilraunir til að bola samkeppnisaðila út af markaði.

Meðan verðlagsstjóri ræddi lon og don við vini sína í Mjólkursamsölunni, hlóðust upp sönnunargögn í fjölmiðlum. Kaupmenn báru vitni um viðskiptahætti einokunarstofnunarinnar og birt voru ljósrit af reikningum frá henni til stuðnings gagnrýninni.

Rannsóknarnefnd verðjöfnunar, sem starfaði á vegum iðnaðarráðuneytisins, hefur skilað skýrslu, sem felur í sér gagnrýni á vinnubrögð verðlagsstjóra og vina hans í svokallaðri fimmmannanefnd, sem er ábyrg fyrir vitleysunni í verðmyndun hjá milliliðum landbúnaðar.

Skýrslan sýnir ljóslega, hvernig mjólkuriðnaðurinn og mjólkurdreifingin hleður undir sig eignum í skjóli einokunar og sjálfvirkra verðhækkana. Eiginfjárstaða þessarar greinar er í skjóli verðlagsstjóra orðin 65%, margfalt betri en tíðkast í öðrum atvinnuvegum.

Skýrslan sýnir ljóslega, hvernig mjólkuriðnaðinum er gefinn kostur á að blanda og rugla saman fjárfestingar- og rekstrarkostnaði við framleiðslu niðurgreiddra einokunarafurða og afurða, sem framleiddar eru í samkeppni við aðra, svo sem brauðs, ávaxtasafa og jógúrtar.

Verðlagsstjóri og fimm manna nefnd hans hafa ekki gert tilraun til að fá metið óhlutdrægt, hver sé raunverulegur stofnkostnaður og rekstrarkostnaður við þætti á borð við brauðgerð, ísgerð og jógúrtgerð annars vegar og við hefðbundnar niðurgreiðsluvörur hins vegar.

Blandaður rekstur af þessu tagi, þar sem annar þátturinn er greiddur af þjóðfélaginu, hlýtur að kalla á nákvæma sundurgreiningu, þótt verðlagsstjóri hafi látið hana undir höfuð leggjast af kerfislægri tillitssemi hans við einokunarstofnanir milliliða landbúnaðarins.

Verðlagsstjóri hafnar niðurstöðum nefndar iðnaðarráðuneytisins og segir skýrslu hennar fulla af reikniskekkjum, rangtúlkunum og aðdróttunum, sem muni vekja úlfúð og leggjast illa í menn. Virðist hann þar eiga við vini sína í vinnslustöðvum landbúnaðarins.

Vegna alls þessa er ekki hægt að gera ráð fyrir, að verðlagsstjóri gæti hagsmuna neytenda, þegar í húfi eru einokunarhagsmunir milliliðakerfis landbúnaðarins.

Jónas Kristjánsson

DV