Við förum til baka eftir Cardenal Casanas til La Rambla og höldum áfram eftir þeirri götu. Til vinstri komum við að höfuðinngangi matvælamarkaðarins í Barcelona. Það er Mercat de Sant Josep, öðru nafni La Boqueria, stálgrinda- og glerhús í ungstíl frá 19. öld (B3). Þar eru stórfenglegar breiður af girnilegum ávöxtum, grænmeti, fiski, skeldýrum og kjöti. Þetta er bezt að skoða á morgnana, því að markaðurinn fjarar út síðdegis.
Næst komum við, líka til vinstri, að Palau de la Virreina. Þar bjó á nýlendutímanum varakonungurinn af Perú, en nú hýsir höllin ýmis söfn og sýningar.
Við höldum áfram eftir eyjunni á miðri La Rambla, göngum fram hjá platantrjám, blómabúðum, fuglabúðum, kaffihúsum og blaðsöluturnum, ef til vill einnig mótmælagöngum, og erum komin til Katalúníutorgs, þar sem við hófum þessa miklu gönguferð.