Umhverfiskeisari á ferð

Greinar

Umhverfisráðuneytið hefur pantað fjörutíu sæti til Rio de Janeiro í einum pakka. Um leið segja talsmenn ráðuneytisins, að ekki sé víst, hversu margir fari. Tilboðsverð í ferðina er þó miðað við þessi fjörutíu sæti, svo að einhver alvara hlýtur að vera að baki tölunnar.

Ráð hefur verið fyrir gert, að umhverfisráðstefnan í Rio sé aðeins til undirritunar á skjölum, sem unnið hefur verið að á öðrum fundum, þar á meðal þeim, sem að undanförnu hefur verið í New York. Þar er verið að ljúka við smíði textans, sem undirritaður verður.

Þegar sætin fjörutíu voru pöntuð, var ekki búizt við, að seinkun yrði á textasmíðinni. Þau voru því ekki pöntuð með það í huga, að vinna þyrfti einhver afrek í samningamakki á ráðstefnunni í Rio. Þau voru bara pöntuð sem hlunnindi fyrir embættismenn og maka þeirra.

Ekki þarf fjörutíu manns til að ýta á einn hnapp í Rio. Þetta er fyrst og fremst fínimannsfundur, þar sem tugir þjóðarleiðtoga fá tækifæri til að belgja sig út í ræðustól og flytja hjartnæmar umhverfisverndarræður til birtingar í ríkissjónvarpi viðkomandi lands.

Það mun taka rúma viku að flytja alla þessa langhunda. Ótrúlegt er, að einhver vinna verði að tjaldabaki við að ljúka þeim fáu atriðum, sem enn var ólokið í New York, þegar þessi leiðari var skrifaður. Þegar er búið að afgreiða atriðin, sem varða sérhagsmuni Íslands.

Ef umhverfisráðherra fer til Rio með fjörutíu manna fylgdarliði eins og rómverskur keisari að fornu, er hann ekki að gera þjóðinni gagn, heldur er hann að bruðla með peninga þjóðar, sem ekki hefur efni á fyrri útgerð sinni í velferðarmálum almennings í landinu.

Fjörutíu sæta pöntunin til Rio er dæmi um óstjórnlega ferðagleði umhverfisráðherra, sem hefur linnulítið verið á flandri síðan hann varð ráðherra. Hann reynir svo að telja fólki trú um, að kostnaður við þetta sé tittlingaskítur í samanburði við mikilvægi umhverfismála.

Í rauninni er ráðherra með ferðum sínum að útvega sér kaupauka, því að ráðstöfunartekjur hans aukast með hverjum degi, sem hann er á ferðalagi. Þótt hann stjórni langminnsta ráðuneytinu, hefur hann komið sér í fremstu röð farfugla ríkisstjórnarinnar.

Ferðasukk ráðherrans og hrokavarnir hans í fjörutíu sæta málinu sýna, að hann hefur eins og raunar fleiri stjórnmálamenn misst sjónar á, að hann er einn af mörgum umboðsmönnum smáþjóðar, sem telur aðeins fjórðung milljónar og býr við erfiðan fjárhag.

Á sama tíma og starfsmenn ráðuneytisins eru að reyna að selja öðrum ráðuneytum og aðilum úti í bæ þau sæti, sem það hefur ekki mannskap til að fylla, er verið að skera niður heilu deildirnar á sjúkrahúsum og flæma hundruð ungmenna frá langskólanámi.

Komið hefur í ljós, að helztu farfuglar ríkisstjórnarinnar ná sér í kaupauka, sem nemur hundruðum þúsunda króna á ári, og sumir ná yfir milljón krónum á ári á þennan hátt. Meðal annars fara sumir þeirra á fundi systurflokka í útlöndum á kostnað almennings.

Þjóðin getur sjálfri sér um kennt. Sem umboðsmenn hefur hún valið sér spillta eiginhagsmunamenn, er líta á ráðherradóm sem aðild að herfangi og halda því jafnvel fram, að kostnaður við bruðlið og fínimannsleikinn sé tittlingaskítur í samanburði við ýmislegt annað.

Fjörutíu manna hópferðin til Rio er eðlilegur hápunktur þeirrar stefnu, að ráðherrar séu eins konar keisarar, sem megi leika á hörpu meðan Róm brennur.

Jónas Kristjánsson

DV