Einkavæðing á villigötum

Greinar

Frumvarpið um breytingu ríkisbanka í hlutafélög hefur mætt harðri andspyrnu í stjórnarflokkunum, einkum í Alþýðuflokknum, þótt skýrum stöfum segi í stjórnarsáttmála, að þetta skuli gera. Mótbyrinn stafar af, að einkavæðing hefur fengið á sig illt orð.

Dæmi Bifreiðaskoðunar Íslands vegur þungt á metunum. Þar var dæmigerðri hallærisstofnun hins opinbera breytt í einkaokurbúlu í skjóli ríkisverndaðrar einokunar. Nú á að fella þessa einokun niður, en skaðinn af hlutafélaginu er skeður í almenningsálitinu.

Í huga fólks eru líka efasemdir um nokkur önnur nýleg einokunarfyrirtæki, sem rekin eru í hlutafélagaformi. Dæmi um það eru Sorpa og Endurvinnslan, sem hafa gert almenningi á ýmsan hátt flóknara að losna við úrgang, svo sem sýnir dæmið um gömlu jólatrén.

Umræðan um svonefndan kolkrabba hefur líka valdið mótbyr. Fólk sér til dæmis fyrir sér, að hlutabréf í núverandi ríkisbönkum féllu í skaut aðila á borð við Íslenzka aðalverktaka, Eimskipafélagið, Skeljung og Sjóvá-Almennar, sem séu eins konar ríki í ríkinu.

Draga má í efa, að þjóðarsátt sé um að einkavæða ríkisfyrirtæki. Miklu nær væri að tala um að markaðsvæða þau. Fólk vill ekki, að ríkiseinokun sé breytt í einkaeinokun, heldur að verð á vöru og þjónustu verði lækkað með því að markaðsvæða ríkisfyrirtæki.

Slíkum árangri má ná á ýmsan hátt. Það er unnt með breytingu ríkisfyrirtækja í hlutafélög og sölu hlutafjárins. En einnig má ná slíkum árangri á allt annan hátt; með því að leyfa erlendum fyrirtækjum að keppa við einokunar- eða fáokunarstofnanir og -fyrirtæki.

Sala Ríkisskipa hefur farið vel af stað og leitt til aukinnar samkeppni í vöruflutningum og lægra verðs á sumum sviðum. Koma Scandia á innlenda tryggingamarkaðinn hefur leitt til aukinnar samkeppni í tryggingum og lægra verðs á sumum tryggingum almennings.

Einkafyrirtæki, sem starfa í skjóli ríkisins, eru ekki betri en hliðstæð ríkisfyrirtæki. Það er markaðsvæðingin, sem skilar þjóðfélaginu arði, ekki einkavæðingin ein út af fyrir sig. Þetta höfðu menn ekki í huga, þegar þeir hleyptu Bifreiðaskoðun Íslands lausri á almenning.

Ráðagerðum ríkisstjórnarinnar um einkavæðingu virðast ekki fylgja neinar áætlanir um að markaðsvæða einkaeinokunina, hvort sem hún er hjá Íslenzkum aðalverktökum, Flugleiðum, vinnslu- og dreifingarstöðvum landbúnaðar eða bara hjá landbúnaðinum sjálfum.

Eindregin friðhelgi einkaeinokunar vekur grunsemdir um, að markmið einkavæðingar ríkisfyrirtækja sé ekki markaðsvæðing þeirra í þágu almennings, heldur einkavæðing einokunarinnar, svo að ýmsir armar kolkrabbans geti makað krókinn í stað ríkisins sjálfs.

Af ýmsum slíkum ástæðum er eðlilegt, að margir, þar á meðal forustufólk í Alþýðuflokknum, telji brýnna að setja ný lög gegn einokun og hringamyndun en lög um breytingu banka í hlutafélög. Lögin um einokun og hringamyndun eru beinlínis í anda markaðsvæðingar.

Hins vegar er allt óljóst um, hvort hlutafélagaform á ríkisbönkunum tveimur felur í sér markaðsvæðingu. Fólk vill fá tíma til að skoða, hvort það felur í sér eflda fáokun kolkrabbans eða raunverulga dreifingu peningavalds með aukinni samkeppni milli fjármálastofnana.

Nær væri að byrja á að efla lög gegn ein- og fáokun og að markaðsvæða Íslenzka aðalverktaka, Flugleiðir, vinnslustöðvar landbúnaðar og landbúnaðinn í heild.

Jónas Kristjánsson

DV