12. Granada – Alhambra

Borgarrölt

Alhambra

Alhambra, Granada 13

Alhambra, ljónagarður

Hástig íslamskrar byggingarlistar er Alhambra-kastalahöllin, eina íslamska konungshöllin, sem varðveitzt hefur tiltölulega óskemmd. Hún endurspeglar þrá sona eyðimerkurinnar í vinjar rennandi vatns og gróðrar. Hvergi er flatarnýting minni en þar. Byggingar urðu þar að aukaatriði, eins konar ramma utan um gróður, læki og gosbrunna. Úti og inni urðu eitt.

Byggingarefnið var létt, fátæklegt og lítt varanlegt; tilviljanakennt sambland af múrsteinum, rusli og gifskalki, en landslagsskipulagið og fíngerðar skrautbeðjur urðu aðalatriði.

Alhambra, Granada 3

Alhambra

Mesta furða er, að hinar veiklulegu byggingar í Alhambra skuli hafa staðizt tímans tönn og vera enn eins og skilið hafi verið við þær í gær. Fíngert ofurflæði útflúrs í gifskalki í súlnagöngum meðfram opnum görðum er svo vel varðveitt, að það er eins og sex til sjö aldir hafi liðið á einni nóttu. Í veggjum hallarinnar leiftrar sólarljósið í mælirænum beðjum gifskalkvindinga og fagurlitaðra gljáplatna úr postulíni, svo og í spakmælum og trúarsetningum í arabisku letri. Í loftunum leiftra marglitir dropasteinsstuðlar úr gifskalki, og skrautbeðjur í tréskurði.

Vinstra megin við aðgöngumiðasöluna er höll Karls V í formföstum endurreisnarstíl, reist á síðari hluta 16. aldar í algerri þverstæðu við hina márísku höll. Þar er nú sagnfræðisafn og listasafn.

Aftan við aðgöngumiðasöluna er hallarkastalinn, Alcazaba, langelzti hluti svæðisins, frá 9. öld. Úr hæsta turni kastalans er frábært útsýni yfir Alhambra, Granada og Sierra Nevada.

Alcazaba, Granada 3

Alcazaba

Gengið er meðfram höll Karls V til að komast í márísku höllina, Palacio árabe, sem er að mestu leyti frá 14. öld.

Þar förum við um hvern salinn á fætur öðrum. Sumir eru undir þaki, en aðrir eru undir berum himni. Víða veita gluggar útsýni yfir borgina. Frægasti salurinn undir þaki er Sendiherrasalur, Sala de Embajadores. Frægustu opnu salirnir eru Myrtuviðargarður, Patio de los Arrayanes; og Ljónagarður, Patio de los Leones. Umhverfis þá tvo garða er Alhambra skipulögð.

Næstu skref