Catedral de Santa María
Gengið er inn í dómkirkjuna, Catedral de Santa María, eftir göngustíg frá aðalgötunni Vía de Colón. Hún er frá 16. og 17. öld, byrjaði í gotneskum stíl, en var að mestu reist í endurreisnarstíl. Hún er með fimm kirkjuskipum. Hringlaga höfuðkapella í miðri kirkju er sérstök í sinni röð og átti að vera eftirlíking af Grafarkirkju í Jerúsalem.
Capilla Real
Til hliðar við dómkirkjuna er Konungskapella, Capilla Real, í síðgotneskum stíl frá upphafi 16. aldar. Þar eru grafin Ferdinand og Ísabella, sem unnu endanlegan sigur yfir Márum hér í Granada og sameinuðu þar með Spán undir kaþólskri stjórn. Inn í kapelluna er gengið frá Vía de Colón um stíginn meðfram gömlu kauphöllinni, Lonja. Framan við kapelluna, það er að segja handan hennar, er ráðhús frá 18. öld í hlaðstíl.
Ef genginn er stígurinn framhjá kapellunni er Alcaisería á vinstri hönd. Það er gamli silkimarkaðurinn frá márískum tíma. Þar er nú ferðamannabazar, með löngum röðum smábúða undir þaki. Þar er líka veitingahúsið Sevilla. Við hinn enda Alcaisería er helzta markaðstorgið í borginni, Plaza de Bibarrambla.
Cartuija
Á einni hæðinni ofan við Granada er Karthúsingaklaustur, Cartuija. Þar inni má sjá einna fullkomnustu mynd hins kúrríkska skrautstíls, sem víðast hvar annars staðar rann út í ofhlæði.