Evrópa heillar og fælir

Greinar

Umræða Alþingis um Evrópska efnahagssvæðið hefur ekki varpað nýju ljósi á kosti og galla samningsins milli Evrópusamfélagsins og Fríverzlunarsamtakanna. Það gildir enn, sem hér hefur áður verið sagt, að samkomulagið virðist þjóna hagsmunum Íslands sæmilega.

Allir aðilar Fríverzlunarsamtakanna líta á Efnahagssvæðið sem biðsal að Evrópusamfélaginu sjálfu, nema Íslendingar. Við höfum litið á samninginn sem endastöð, eins konar framhald á nothæfum viðskiptasamningi, sem við höfðum áður gert við Evrópusamfélagið.

Með tilkomu Efnahagssvæðisins fáum við greiðari aðgang með fleiri fiskafurðir á lægri tollum að stærsta markaði í heimi. Við njótum líka skuldbindinga, sem við tökum á herðar um að auka viðskiptafrelsi í innflutningi og innanlands til að efla íslenzka hagþróun.

Á hinn bóginn þurfum við að sýna töluverða aðgát í sambandi við hugsanleg landakaup útlendinga, hugsanlegan aðflutning erlends vinnuafls og lögsögu evrópskra dómstóla. Af veiðiheimildum þurfum við ekki að hafa áhyggjur, því að þær eru næstum því ekki neinar.

Hér í DV hefur áður verið bent á, að hluta milljarðanna, sem ríkið ver á hverju ári til landbúnaðar, mætti nota til að kaupa jarðir og jarðarhluta, heiðalönd og afréttir. Þannig getur ríkið komið í veg fyrir, að mikilvægar jarðir og lönd fari á alþjóðlegan fasteignamarkað.

Einnig hefur í DV verið bent á, að reglur um tungumálakunnáttu atvinnuumsækjenda mundu koma í veg fyrir örtröð hér af hálfu útlendinga. Við yrðum þó að hafa undanþágur frá slíkum reglum til að draga hingað aðila til að halda uppi samkeppni í fáokunargreinum.

Við þurfum að losna við einokun Flugleiða, fáokun olíufélaga, tryggingafélaga og banka. Við þurfum að koma af stað innflutningi á samkeppnisvörum í landbúnaði. Allt þurfum við þetta til að draga úr kostnaði almennings við að lifa sómasamlegu lífi hér á landi.

Við frekari rökræður um Efnahagssvæðið er brýnt að byrja að ræða í alvöru, hvort við eigum að sækja um aðild að Evrópusamfélaginu þegar á þessu ári, svo að við getum haft samflot með Norðurlöndum og stuðning af slíku samfloti. Atburðarásin er orðin svo hröð.

Hingað til höfum við talið, að við ættum ekki að ganga inn í evrópska virkið, enda væri það smíðað um aðra hagsmuni en okkar. Mestu máli skiptir þó, að líklegt er, að farsælla sé fyrir þjóðir að vera sín eigin þunga-miðja en að sækja hana til mandarína í Bruxelles.

Þótt Evrópusamfélagið hafi að mörgu leyti gefið góða raun, er það í eðli sínu stofnun, þar sem embættismenn og þrýstihópar starfa saman að viðskiptastríði við umheiminn. Evrópusamfélagið er viðskiptalega ofbeldishneigð stofnun, sem heftir alþjóðlega fríverzlun.

Annar slæmur galli Evrópusamfélagsins er landbúnaðarstefna þess, sem minnir nokkuð á hina íslenzku, þótt í smærri stíl sé að höfðatölu. Þessi stefna á töluverðan þátt í spennu milli Evrópusamfélagsins og umheimsins, svo sem fram kemur í alþjóðlegum tollaviðræðum.

Í þriðja lagi er ljóst, að við seljum ekki frumburðarrétt okkar að fiskveiðilögsögunni til að komast í Evrópusamfélagið. En við komumst ekki að raun um, hvað hangir á spýtunni á því viðkvæma sviði, nema við hefjum viðræður um hugsanlega inngöngu í samfélagið.

Skynsamlegt er að staðfesta samninginn um Efnahagssvæðið og fara í alvöru að ræða, hvort rétt sé að sækja á þessu ári um aðild að Evrópusamfélaginu.

Jónas Kristjánsson

DV