Tjú, tjú, tra la la

Greinar

Ríkisstjórnin lagði einn milljarð af fé skattgreiðenda til að greiða fyrir niðurstöðu í kjaradeilunum, sem staðið hafa í tvo þriðju hluta árs. Þetta er árlegur milljarður, sem felur í sér, að niðurskurður velferðarkerfisins verður minni en orðið hefði án þessara kjaradeilna.

Um leið og verkalýðsrekendur lofuðu með undirskrift sinni að mæla með málamiðlun sáttasemjara, sem þeir kalla varnarsigur, er ríkisstjórnin að leggja fyrstu drög að fjárlagafrumvarpi næsta árs. Þar er gert ráð fyrir enn frekari niðurskurði velferðar árið 1993.

Dansinn er stiginn þannig, að fyrst sker ríkisstjórnin velferðina niður um sex milljarða. Síðan gefur hún til baka einn milljarð. Þar á eftir sker hún velferðina niður um fimm milljarða í viðbót. Þetta er dansinn: Eitt skref afturábak og fimm skref áfram, tjú, tjú, tra la la.

Hagkvæmt getur verið að stíga dans af þessu tagi til að verkalýðsrekendur geti sagzt hafa unnið varnarsigur upp á einn milljarð og lokað augunum fyrir því, að bæði á undan og eftir þessum milljarði er ríkisstjórnin að skera velferðina niður um margfaldar upphæðir.

Niðurstaða kjaradeilnanna bendir til, að þjóðarsátt sé um, að velferð almennings hafi verið orðin of mikil hér á landi, sérstaklega í heilbrigðismálum og skólamálum. Hún hafi verið meiri en svo, að þjóðin geti staðið undir henni á tímum samdráttar og atvinnuleysis.

Sjúkrahús og skólar eru stofnanirnar, sem þjóðarsátt stjórnmála og vinnumarkaðar beinist gegn. Auðvelt er að skera þær niður, því að hvorki verður sýnt fram á tölulegt samhengi milli góðs heilsufars og spítalakostnaðar né milli góðrar menntunar og skólakostnaðar.

Til dæmis er athyglisvert, að skólamenn, sem ættu að geta komið fyrir sig orði, hafa ekki megnað að sýna þjóðinni fram á, að varhugavert geti verið að skera skólagöngu, í vikulegum klukkutímum talið, langt niður fyrir það, sem tíðkast í samkeppnislöndum okkar.

Ennþá athyglisverðara er, að þjóðarsáttin felur í sér, að niðurskurðurinn eigi að beinast að velferðarkerfi almennings, en ekki að velferðarkerfi gæludýranna í atvinnulífinu. Eftir nokkur ár verður landbúnaðurinn orðinn þyngri á fóðrum en sjúkrahúsin og skólarnir.

Dæmigert fyrir ástand þjóðarsáttarinnar er, að nú á að byggja 500-600 kinda fjárhús á ríkisbúinu að Hesti til að stunda rannsóknir á verðlausri ull og til að halda uppi kjötfjallinu, sem skattgreiðendur kaupa samkvæmt búvörusamningi ráðuneytis og milliliða í landbúnaði.

Á sama tíma og ríkisstjórnin sker skóla og sjúkrahús til blóðs til að ná í tvo eða þrjá milljarða á ári eru brenndir á hverju ári um 20 milljarðar í innflutningsbanni búvöru, niðurgreiðslum, styrkjum, útflutningsbótum og búvörusamningi. Um þetta er þjóðarsátt í landinu.

Kverúlantar mega röfla um þessa 20 milljarða og kvarta inn á milli um ótímabæra fjárfestingu í 12 milljarða orkuveri í Blöndu og annað í þeim dúr. Þjóðin hlustar ekki á það, en gengur í þess stað að kjörborði stéttarfélagnna og samþykkir niðurskurð velferðar.

Svo virðist sem þjóðarsátt sé um, að ekki megi snerta velferðarkerfi gæludýra atvinnulífsins, en velferð almennings megi skera til blóðs. Svo virðist sem þjóðarsátt sé um, að 1,7% launahækkun og 50.000 lágmarkslaun séu eins konar óviðráðanleg náttúrulögmál.

Ef þjóðin sér ekki eða vill ekki sjá, hvar skera megi niður án þess að draga úr velferð almennings, hefur hún fengið þá sáttatillögu, sem hún á skilið.

Jónas Kristjánsson

DV