Vaxandi stéttaskipting

Greinar

Niðurskurður heilbrigðis- og skólamála er þegar orðinn alvarlegur og mun verða enn hættulegri á næsta ári, af því að ríkisstjórnin og stuðningsflokkar hennar ætla áfram að láta samdrátt ríkisgeirans koma niður á velferð almennings, en ekki velferð pólitískra gæludýra.

Stéttaskipting er farin að aukast hér á landi og mun aukast enn hraðar á næsta ári. Þjóðarsáttir vinnumarkaðarins hafa magnað þessa breytingu, því að þær hafa haldið 50.000 króna lágmarkslaunum í skefjum, en hleypt 500.000 króna yfirstéttinni upp í 750.000 krónur.

Skipti þjóðarinnar á atvinnuleysi fyrir verðbólgu stefna í sömu átt. Á vettvangi Reykjavíkurborgar er þegar farið að tala í alvöru um að koma upp súpueldhúsi fyrir fátæklinga, eins og rekið var í kreppunni fyrir stríð. Sú umræða lýsir umskiptunum vel.

Markaðshagfræðin að baki niðurskurðar heilbrigðis- og skólamála byggist á röksemdafærslu, sem ekki er lakari en velferðarfræðin, er hún leysir af hólmi. En um þetta gildir hið sama og um aðrar aðgerðir, að ekki er hægt að sjá fyrir ýmsar skaðlegar aukaverkanir.

Lasburða gamalmenni eru flutt milli stofnana í vondaufri leit að sparnaði í heilbrigðiskerfinu. Í vaxandi mæli verða fátæklingar að neita sér um lyf, sem eru of dýr fyrir þá. Veikt fólk er flutt af spítölum og stofnunum til að efla framleiðni sjúkrarúma og legudaga.

Skólakerfið er skorið niður á öllum stigum. Með frestun námslána og raunvöxtun þeirra er stuðlað að stéttaskiptingu, þar sem börn 50.000 króna fólksins fara á eyrina, en börn 750.000 króna fólksins fara til Harvard og Princeton. Það ferli er þegar í fullum gangi.

Markaðshagfræðin að baki atlögunnar að jafnrétti til náms kemur til með að bila, þegar þjóðin hættir að vera ein. Þegar hún klofnar í yfirstétt og undirstétt, verður ekki lengur neinn grundvöllur fyrir þjóðarsátt um aflaskipti. Þá er sáð eitri stéttahaturs og ofbeldis.

Við sjáum fordæmið í Bandaríkjunum, þar sem gráðug yfirstétt hefur notað tvo forseta í röð, Ronald Reagan og Georg Bush, til að rústa velferðarkerfi eftirstríðsáranna og færa peninga frá hinum fátæku til hinna ríku, svo að stéttaskiptingin er orðin að púðurtunnu.

Þetta kom fram í óeirðunum í Los Angeles, þar sem innibyrgt hatur og vonleysi svertingja fátækrahverfanna fékk útrás í stundaræði skemmdarverka og misþyrminga. Slíkar óeirðir hafa orðið áður og munu verða enn algengari í framtíðinni, ef stéttaskipting eykst.

Bandaríkin eru ekki lengur neinn bræðslupottur þjóða. Þau eru lagskipt, þar sem hver þjóð býr út af fyrir sig og deilir ekki sameiginlegu þjóðlífi. Milli hinna einstöku þjóða eða stétta ríkja fordómar af ýmsu tagi. Að þessu leyti eru Bandaríkin víti til að varast.

Við eigum að reyna að spyrna við fótum til að lenda ekki á slíkri braut stéttaskiptingar. Við eigum að halda uppi velferð almennings, þótt það kosti niðurskurð á velferð ýmissa pólitískra gæludýra, svo sem landbúnaðar, er kostar okkur 20 milljarða á hverju ári.

Við eigum að greiða niður skólagöngu með ýmsum hætti, svo sem með raunvaxtalausum námslánum, svo að fólk geti aflað sér menntunar til að rífa sig upp úr fátækt. Vextir ofan á verðtryggingu námslána er áfall fyrir þá stefnu, að Íslendingar verði áfram ein þjóð.

Ríkisstjórnin hefur fetað skaðlega braut, sem stefnir í átt til vaxandi stéttaskiptingar og skertrar tilfinningar fólks fyrir því, að hér búi ein þjóð í einu landi.

Jónas Kristjánsson

DV