Framhaldslíf

Greinar

Atlantshafsbandalagið getur komið í veg fyrir hægt andlát sitt eftir hrun óvinarins í austri. Það getur búið til ný og mikilvæg hlutverk handa sér og er að reyna það. Um mánaðamótin verður samþykkt fyrsta skrefið, sem er friðargæzla í nágrannalöndum bandalagsins.

Framkvæmdastjóri bandalagsins hefur formlega boðið Öryggisráðstefnu Evrópu aðstoð við friðargæzlu á svæðum, sem ráðstefnan nær yfir, svo sem austan hins horfna járntjalds. Þar á meðal eru Bosnía-Hersegóvína á Balkanskaga og Nagorno-Karabak í Kákasusfjöllum.

Reiknað er með, að tilboðið verði staðfest á utanríkisráðherrafundi Atlantshafsbandalagsríkjanna í Osló um mánaðamótin. Franska stjórnin hefur verið tregust í málinu, enda vill hún frekar, að friðargæzla í Evrópu verði á vegum samtaka, sem eingöngu eru evrópsk.

Hins vegar hefur komið í ljós, að enn getur engin stofnun tekið að sér störf, sem Atlantshafsbandalagið getur. Evrópubandalagið er peningastofnun, sem er máttvana í hernaðarmálum og Öryggisráðstefnan hefur ekki aðgang að neinu nothæfu friðargæzluliði.

Þýzk-franska herdeildin, sem mynduð hefur verið fram hjá Atlantshafsbandalaginu, er að allra mati ófær um að koma til skjalanna á friðargæzlusvæðum. Af þeim ástæðum er líklegt, að franska stjórnin sætti sig við, að bandalagið færi út kvíarnar á þessu sviði.

Að þessu sinni er aðeins verið að tala um friðargæzlu á svæðum, þar sem einhvers friðar er að gæta. Það þýðir, að fyrst þarf að koma á friði með samkomulagi, svo að hægt sé að senda hermenn bandalagsins til að varðveita þann frið, en ekki til að berjast við óvini.

Af þessu má ljóst vera, að nýtt hlutverk Atlantshafsbandalagsins mun ekki draga úr blóðbaði Serba í Bosníu. Til þess þarf aðgerðir á öðrum sviðum, svo sem algert viðskipta- og samgöngubann, svo og verndun Bosníuborga gegn loftárásum flughers Serbíu.

Átökin á Balkanskaga eru að þessu leyti eins og útþenslustefna Íraks á vegum Saddams Husseins og útþenslustefna Þýzkalands á vegum Adolfs Hitlers. Slobodan Milosevic verður ekki stöðvaður með neinum samningum, hvort sem hann undirritar þá eða ekki.

Kosturinn við útvíkkun á verksviði Atlantshafsbandalagsins er, að hún getur leiðzt út í, að bandalagið taki að sér að gæta loftsins yfir Bosníu-Hersegóvínu og Króatíu, svo að flugher Serbíu geti ekki athafnað sig. Þetta er skref út fyrir hefðbundna friðargæzlu.

Bandaríkjastjórn vill útvíkkun á verksviði Atlantshafsbandalagsins fremur en að til skjalanna komi evrópskar stofnanir á sama sviði. Auk þess getur slík útvíkkun dregið úr þrýstingi bandarískra þingmanna til samdráttar á þátttöku Bandaríkjanna í bandalaginu.

Að undanförnu hafa fulltrúar Bandaríkjastjórnar, sem áður studdu sambandsstefnu Serbíu gegn sjálfstæðisstefnu balkanskra þjóðríkja, snúið svo gersamlega við blaðinu, að James Baker utanríkisráðherra er orðinn manna harðorðastur um villimennsku Serbíustjórnar.

Hingað til hefur Atlantshafsbandalagið verið félagsskapur um gagnkvæma hernaðaraðstoð, ef ráðizt er á eitt aðildarríkjanna. Ólíklegt er orðið, að þess hlutverks verði mikil þörf í náinni framtíð. Bandalagið getur því valið um hægt andlát eða nýtt hlutverk í friðargæzlu.

Svæðisbundin upplausn austan hins horfna járntjalds gefur Atlantshafsbandalaginu von um framhaldslíf, sem getur orðið Evrópu jafn gagnlegt og fyrra líf þess var.

Jónas Kristjánsson

DV